DS Bisp var norskt flutningaskip frá Haugasundi, byggt árið 1889 í hafnarborginni Sunderland í Englandi af Sunderland Shipbuilding Co. Var það 1000 brúttótonn og 64 m á lengd. Hafði það áður m.a. heitið Truro City, Normandie og Norli, en þegar útgerðarfyrirtækið O. Kvilhaug í Haugasundi yfirtók skipið árið 1913, fékk það nafnið Bisp.
Skipstjóri Bisp var Rolf Kvilhaug, 35 ára gamall, og var hann sonur útgerðarmannsins. Bróðir hans, Sverre, var 2. stýrimaður. Bisp var mikið í Íslandsferðum og 12. nóvember 1939 var það statt í Vestmannaeyjum til að losa kol. Þar réðust þrír Íslendingar á skipið, þeir Þórarinn Sigurður Thorlacius Magnússon, Haraldur Bjarnfreðsson og Guðmundur Eiríksson.
Þann 20. janúar 1940 lagði Bisp af stað frá Sunderland með farm af kolum og koksi, og var stefnan tekin á Åndalsnes í Noregi. Bisp náði hinsvegar aldrei á leiðarenda, og 16. febrúar var það skráð sem saknað. Í fyrstu var talið að skipinu hafi verið sökkt af þýska kafbátnum U-23 undir stjórn Otto Ketschmer, þann 23. janúar. En síðar hefur komið í ljós að hér mun hafa verið um að ræða kafbátinn U-18 sem stýrt var af Ernst Mengersen. Skv. skýrslum sem Mengersen skráði kom kafbáturinn auga á Bisp rétt eftir miðnætti þann 24. janúar og var það ljóslaust og sigldi sikk-sakkandi. Kafbáturinn elti Bisp en það var of bjart til árásar. Rétt fyrir klukkan sjö að morgni til var tundurskeyti skotið á Bisp, en skeytið missti marks. Tíu mínútum síðar, 07:01 var öðru skeyti skotið og hitti það í mark. Þetta gerðist þrátt fyrir að Noregur væri yfirlýst hlutlaust ríki á þessum tíma, og með þessu skoti lauk lífi þeirra 14 manna sem um borð voru. Íslendingarnir þrír sem fórust, voru fyrstu Íslendingarnir sem búsettir voru á Íslandi, til að farast í seinni heimsstyrjöldinni.
Þeir sem fórust voru:
Þórarinn Sigurður Thorlacius Magnússon, 33 ára, frá Vestmannaeyjum.
Þórarinn fæddist þann 27. nóv. 1906 að Langa-Hvammi í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Magnús Þórðarson Thorlacius (1876-1955) og Margrét Bjarnadóttir (1869-1950). Þórarinn var harðduglegur sjómaður, en aðalástæðan fyrir því að hann réðst á skipið var að tekjurnar heilluðu. Ætlaði hann sér að safna peningum til að setja í kaup á bát. Þórarinn kvæntist Önnu Halldórsdóttur (1906-1992) þann 12. september 1931 og áttu þau tvö börn saman:
- Guðrún Ársæl Þórarinsdóttir (1932-2021).
- Bergsteinn Theódór Þórarinsson (1933-1991).
Þórarinn hvílir í votri gröf en hans er minnst á legstein konu hans og sonar í Vestmannaeyjakirkjugarði.
Haraldur Bjarnfreðsson, 22 ára, frá Efri-Steinsmýri í Leiðvallahr., V-Skaft.
Haraldur fæddist þann 23. desember 1917 að Efri-Steinsmýri. Foreldrar hans voru hjónin Bjarnfreður Jóhann Ingimundarson (1889-1962) og Ingibjörg Sigurbergsdóttir (1893-1945). Haraldur kom úr stórum systkinahóp og meðal systkina hans voru Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir (1921-1994) verkalýðskona og alþingismaður og Magnús Bjarnfreðsson (1934-2012) fréttamaður. Haraldur hafði dvalið í Eyjum næstliðið ár áður en hann réð sig á Bisp. Hann var ókvæntur og barnlaus en lét eftir sig foreldra á Efri-Steinsmýri.
Haraldur hvílir í votri gröf.
Guðmundur Eiríksson, 20 ára, frá Vestmannaeyjum.
Guðmundur fæddist þann 30. maí 1919 að Dvergasteini í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru hjónin Eiríkur Ögmundsson (1884-1963) og Júlía Sigurðardóttir (1886-1979). Barnsmóðir Guðmundar var Guðný Kristófersdóttir (1917-2012), þau eignuðust eina dóttur saman:
- Erla Ingibjörg Guðmundsdóttir (1938).
Guðmundur hvílir í votri gröf.
Heimildir:
DS Bisp á Wikipedia
Minnehallen.no
Eyjafréttir 31.05.2012, s. 12-13
Fylkir 01.12.2017, s. 17
MBL 27.02.1940, s. 3
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.1940, s. 29
https://krigsseilerregisteret.no/skip/3729