Fram VE 176

Vélbáturinn Fram VE 176 var alveg nýr og vel útbúinn að öllu leyti. Vélin var sérstaklega aflmikil og báturinn sjálfur svo rammgerður sem frekast má vera. Báturinn var eign formannsins, Magnúsar Þórðarsonar, að mestu leyti. Mun hann hafa átt 4/5 hluta bátsins, en aðrir 1/5 hlutann með honum.

Fram VE 176
Fram VE 176

Fimmtudaginn 14. janúar 1915 fór vélbáturinn Fram á fiskveiðar, ásamt mörgum öðrum bátum. Veður var þá fremur gott, hæg austangola og sjór nær enginn. En á leið, skall á ofsaveður að austan, með ógurlegasta brimi og stórsjó. Bátarnir voru þá eigi komnir að og höfðu fæstir þeirra dregið línur sínar, er óveðrið skall á. Urðu margir að skilja þær eftir og hafa þær að líkindum tapast.

Upp úr hádegi fara bátar að koma almennt að landi, og var þá komið ofsa veður. Um tvöleytið sást frá Kirkjubæ bátur koma sunnan með og fá stórt ólag, sem keyrir hann í kaf. Eftir ólagið flaut upp undir skammdekk. Bátnum skilaði upp undir urðir og þekktu menn bátinn og sáu, að það var Fram. Tveir menn voru þá í bátnum, annar á dekki, en hinn í vélarhúsgati. Sá sem var á dekkinu fór úr sjófötunum og tók bauju, sem flaut við hinn sökkvandi bát og hélt sér í hana. Stakk hann sér við hvern sjó, sem á hana kom og tók hana alltaf aftur. Baujuna bar að á urðunum og kenndi grunns og brotnaði; þar með hvarf maðurinn og drukknaði. Þetta var Arnkell Thorlacíus.

Mb. Baldur var á eftir, formaður Sigurður Oddsson, og hægði hann á, til að reyna að bjarga, en Fram var kominn svo nálægt landi að ekkert varð að gert.  Á klöppinni við Kirkjubæ stóð margt fólk, aðgerðarlaust með öllu, en reiðubúið til þess að veita hjálp ef þess væri kostur. Allir mennirnir hurfu í sjónum. Skömmu seinna fór annar vélbátur þar framhjá, en þá var Fram sokkinn. Aðeins eitt dufl flaut á öldunum og sýndi staðinn þar sem fimm röskir sjómenn höfðu drukknað.


Magnús Þórðarson, formaður og eigandi bátsins, fæddist 19. september 1879 að Tjörnum undir Eyjafjöllum, Vestur-Eyjafjallahr., Rang. Magnús kom til Vestmannaeyja 1904 og settist þar að. Var fyrst háseti á opnu skipi og byrjaði formennsku á vertíðarskipinu Ísak 1906. 1907 keypti hann mb. Bergþóru, en tapaði henni í ofsaveðri 20. febrúar 1908. Þá kaupir hann mb. Karl 12., og er með hann til vertíðarloka 1914, en þá kaupir hann mb. Fram og ferst á honum 14. janúar 1915 með allri áhöfn.

Magnús Þórðarson var meðalmaður á vöxt, vel á sig kominn á allan hátt, dökkur á hár og skegg, fríður, lipur í hreyfingum, kappsamur og harður við sjálfan sig. Hann var mikill aflamaður, duglegur og framsækinn og var aflakóngur árið 1913. Hann hafði alltaf góða menn, því að allir vildu með honum vera.

Magnús lét eftir sig eiginkonu, Ingibjörgu Bergsteinsdóttur, og fjögur börn; Bergþóru (f. 1905), Kristján (f. 1909), Steinunni Ágústu (f. 1912) og Magneu Lovísu (f. 1914).

Bróðir Magnúsar, Gísli, fórst með vb. Má VE 13. febrúar 1920.

Magnús hvílir í votri gröf.


Ólafur Ágúst Sigurhansson, vélamaður, fæddist 27. ágúst 1888 í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, Vestur-Eyjafjallahr., Rang. Ágúst var elztur af systkinunum og fór snemma til vers, eins og kallað var. Um sama leyti og vélbátar komu í Eyjar, byrjaði Ágúst sjómennsku á þeim. Hann varð fljótlega vélamaður og var búinn að vera lengi á Karli 12. hjá Magnúsi í Dal. Ágúst var góður sjómaður og jafnhliða góður vélamaður, því að hann var mjög handlaginn.

Ágúst var ókvæntur en skildi eftir sig tvær dætur, Guðrúnu (f. 1910) og Sigríði (f. 1912) sem hann átti með Guðnýju Eyjólfsdóttur.

Ágúst hvílir í Vestmannaeyjakirkjugarði hjá bræðrum sínum Tómasi Karli og Berent.


Björn Eyjólfsson, háseti, fæddist 7. júní 1890 í Björnskoti, Vestur-Eyjafjallahr., Rang. Björn fór með foreldrum sínum að Ásólfsskála og síðar að Miðskála. Hann fór ungur til sjóróðra til Vestmannaeyja eins og margir Eyfellingar og varð fljótt eftirsóttur maður, því að hann var harðskeyttur mannskapsmaður og gekk að öllu með harðfylgi

Björn hafði róið margar vertíðir í Eyjum og var nú kominn á glæsilegan bát með einum af álitlegustu formönnum Eyjanna.

Björn var ógiftur og barnlaus og var hjá foreldrum sínum til dauðadags.

Björn hvílir í votri gröf.


Helgi Halldórsson, háseti, fæddist 27 júní 1880 á Önundarhorni undir Eyjafjöllum, Austur-Eyjafjallahr., Rang. Helgi fór ungur til sjóróðra til Vestmannaeyja, og mun hafa verið mörg úthöld á opnu skipi. Fór svo alfarinn úr Vestmannaeyjum til Hafnarfjarðar þar sem hann giftist og eignaðist fjögur börn; Kristinn (f. 1907), Helgu Halldóru (f. 1908), Þorsteinu (f. 1910) og Margréti Maríu (f. 1912).

Hann skildi svo við konu sína og kom aftur til Vestmannaeyja haustið 1913 og varð sjómaður á M.b. Trausta hjá Guðmundi Helgasyni. Veturinn 1914 fór hann svo háseti á M.b. Fram til Magnúsar í Dal, og urðu þar hans ævilok. Helgi var talinn dugnaðarmaður. Hann var virðulegur maður og þreklegur á allan hátt.

Helgi hvílir í votri gröf.


Arnkell Thorlacius Daníelsson, háseti, fæddist þann 6. nóvember 1881 í Stykkishólmi. Foreldrar hans voru Guðrún Anna Thorlacius Jósefsdóttir og Ólafur Daníel Theodór Árnason Thorlacius kaupmaður. Arnkell lauk prófi í stýrimannafræði 14. apríl 1904 frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. 

Hann var mörg ár í siglingum ytra, en varð fyrir því slysi í Þýskalandi, að bóma slóst fyrir brjóstið á honum.
Þá fór hann til systur sinnar, Jórunnar Thorlacíus, og móður sinnar að Steintúni í Bakkafirði, sem þá voru fluttar austur á Bakkafjörð og var hann þar í 2 ár. Fór hann svo til Vestmannaeyja þar sem hann fórst með Fram VE 176.

Arnkell var ógiftur og barnlaus.
Hann hvílir í Vestmannaeyjakirkjugarði (ég er því miður ekki með mynd af legstein hans).


Heimildir:
MBL 15-01-1915, s. 1-2
Sjómannablaðið Víkingur 01.10.1962, s. 205
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Þegar Fram VE 176 fórst 14. jan. 1915