Gullfaxi ÍS 594 – Eiríkur Finnsson ÍS 26 – Vísir BA 44

Þann 25. febrúar 1980 fórust tveir rækjuveiðibátar í Ísafjarðardjúpi og einn í Arnarfirði í aftakaveðri sem gekk yfir Vestfirði. Alls fórust sex sjómenn með þessum þremur bátum og 19 börn urðu föðurlaus.

Bátarnir voru:


Allir rækjubátar réru frá Ísafirði í sæmilegu veðri mánudagsmorguninn 25. febrúar 1980, og fóru bátarnir Gullfaxi ÍS 594 og Eiríkur Finnsson ÍS 26 til veiða í innanverðu Djúpi. Upp úr hádegi var skollið á aftakaveður af suðvestri. Vindur hafði verið af suðaustri og reiknuðu rækjusjómenn með að vind lægði áður en hann snérist í suðvestur sem var spáð. Vegna veðurfarsins voru minni bátarnir norður í Jökulfjörðum, en flestir stærri bátarnir inni í Djúpi. Það hvessti fyrr í Jökulfjörðunum og því voru flestir minni bátarnir komnir af stað í land þegar veðrið fór að harðna. Komu þeir tiltölulega snemma í höfn, nema einn bátur, Sólrún, sem lá í vari í Jökufjörðum. Hjá henni var rækjubáturinn Guðbjörg, sem fór Sólrúnu til aðstoðar ef á þyrfti að halda.

Þegar veðrið skall á í Inndjúpinu fóru bátarnir fljótlega að hífa og er vitað að Gullfaxi var búinn að hífa út af Arnarnesi og lagður af stað til Ísafjarðar. Tiltölulega stutt var á milli Gullfaxa og Silfár og sáu skipverjar síðast til Gullfaxa úti af Seyðisfirði. Þá gerði mikla rokhviðu og þegar henni létti sást ekki lengur til Gullfaxa. Silfá snéri við og hóf að svipast eftir Gullfaxa en án árangurs. Síðast fréttist af Eiríki Finnssyni þar sem hann var að hífa við Ögurhólma skömmu eftir hádegi, en hafði ekki leitað vars.

Um kl. 15 voru bátarnir beðnir um að tilkynna sig og þá kom í ljós að tveggja báta, Gullfaxa og Eiríks Finnssonar, var saknað. Þrír línubátar frá Ísafirði fóru til aðstoðar og leitar fyrir klukkan 3 á mánudeginum, og björgunarmenn frá Súðavík, Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík voru tilbúnir. Línubáturinn Guðný fór með átta björgunarsveitarmenn og kom þeim í land á Sandeyri við Snæfjallaströnd við erfiðar aðstæður. Þeir gengu ströndina á þriðjudeginum og bændur á Snæfjallaströnd byrjuðu leit á landi þegar síðdegis á mánudeginum. Á mánudagskvöldinu fundu menn frá Unaðsdal gúmmíbát sem talinn var vera úr Eiríki Finnssyni, við Skarð á Snæfjallaströnd. Við Sandeyri fannst brak sem talið var vera úr Gullfaxa. Flök bátanna tveggja fundust svo skammt norður af Vigur; flak Gullfaxa á 50 faðma dýpi og flak Eiríks Finnssonar á 36 faðma dýpi.

Um kl. 2-3 á mánudeginum var farið að óttast um rækjubátinn Vísi frá Bíldudal. Frigg BA var þá inni á Bíldudal og var strax beðin um að fara og svipast um eftir bátnum. Þá var varðskipi, sem var miðsvæðis úti af Vestfjörðum, snúið við og stefnt í Arnarfjörð. Það hafði áður verið beðið um aðstoð vegna Ísafjarðarbátanna, en verið snúið við þar sem færri skip voru til leitar í Arnarfirði.

Vísir hafði verið að hífa fyrir innan Gíslasker á Arnarfirði þegar síðast fréttist til hans, en bátarnir Vísir og Pilot BA 6 höfðu haft samband sín á milli. Varðskipið fór inn fyrir Gíslasker, inn á Dynjandisvog og Borgarfjörð, en sá ekki neinn bát. Hinsvegar fannst ómerktur rækjukassi og lestarborð út af bænum Auðkúlu. Bændur á Auðkúlu fundu grámáluð stíuborð með rauðum röndum, sem talið var að væru frá Vísi.

Björgunarsveitarmenn fóru með varðskipi á þriðjudeginum og tóku land á Rafnseyri til þess að leita fjörur við norðanverðan Arnarfjörð. Flugvél frá flugfélaginu Örnum flaug leitarflug án árangurs. Á endanum var leit hætt og mennirnir taldir af. Þeir hvíla allir í votri gröf.

Með Gullfaxa ÍS 594 fórust tveir menn, bræður:


Ólafur Sigurður Össurarson, 48 ára, til heimilis að Fjarðarstræti 57 á Ísafirði.

Ólafur fæddist þann 5. janúar 1932 að Smiðjugötu 1 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Össur Pétur Valdimarsson (1900-1980) og Guðbjörg Rannveig Hermannsdóttir (1906-1993). Ólafur byrjaði mjög ungur á sjómennskunni sem varð hans lífsstarf. Hann var á ýmsum bátum frá Ísafirði og einnig nokkrar vertíðir á bátum frá Hafnarfirði. Árið 1960 keypti hann ásamt Guðjóni Loftssyni mági sínum mb. Mumma, lítinn bát sem þeir stunduðu rækju- og handfæraveiðar á, og varð þessi bátur þeim hin mesta happafleyta um árabil. Árið 1968 keypti hann svo mb. Gullfaxa ásamt Ægi Ólafssyni svila sínum. Árið 1974 keypti Valdimar bróðir Ólafs, hluta Ægis í Gullfaxa og voru þeir bræður sameignarmenn allt til þess að þeir fórust með Gullfaxa. Ólafur var einn af reyndustu rækjuveiðiskipstjórum við Djúp og alla tíð mjög aflasæll svo af bar.

Með Maríu Sigurðardóttur (1936-2015) átti Ólafur son:

 • Jón Rósmann Ólafsson (1953).

Ólafur kvæntist Guðrúnu Hjördísi Óskarsdóttur (1937-2006) þann 5. janúar 1962. Þau áttu þrjú börn saman:

Ólafur hvílir í votri gröf en í Réttarholtskirkjugarði í Engidal er minningarreitur um hann og Valdimar Þórarinn bróður hans.


Valdimar Þórarinn Össurarson, 40 ára, til heimilis að Sundstræti 30 á Ísafirði.

Valdimar fæddist þann 23. febrúar 1940 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Össur Pétur Valdimarsson (1900-1980) og Guðbjörg Rannveig Hermannsdóttir (1906-1993). Valdimar var dugnaðarforkur, byrjaði að stunda sjó á stærri skipum á æskuárum, en hafði svo fengist við byggingarvinnu og verkstjórn í því fagi í allmörg ár, var verkstjóri hjá byggingaverktakanum Steiniðjunni HF á Ísafirði. Byggði hann ásamt nágranna sínum, hús fjölskyldunnar að Sundstræti 30. Valdimar hafði fyrir nokkrum árum gerst sameignarmaður bróður síns í Gullfaxa og stunduðu þeir sjóinn saman upp frá því. Voru þeir bræður sérlega samhentir og báturinn þeirra, Gullfaxi, bar af öðrum bátum hvað snerti snyrtimennsku og alla umgengni.

Valdimar var kvæntur Guðbjörtu Ásdísi Guðmundsdóttur (1940) og áttu þau fjóra syni saman:

 • Össur Pétur Valdimarsson (1960).
 • Guðmundur Valdimarsson (1963).
 • Jón Smári Valdimarsson (1965).
 • Auðunn Bragi Valdimarsson (1972)

Valdimar hvílir í votri gröf en í Réttarholtskirkjugarði í Engidal er minningarreitur um hann og Ólaf Sigurð bróður hans.


Með Eiríki Finnssyni ÍS 26 fórust tveir menn:


Haukur Böðvarsson, 30 ára, skipstjóri til heimilis að Túngötu 20 á Ísafirði.

Haukur fæddist þann 18. október 1949 á Ísafirði. Foreldrar hans voru hjónin Böðvar Sveinbjarnarson (1917-1999) og Iðunn Eiríksdóttir (1921-1974). Haukur fór ungur á sjóinn, 14 ára fór hann fyrst á handfæri eins og gjarnt var um unga drengi í þá daga. Skipstjóraferil hóf hann rétt tvítugur að aldri og hafði hann verið skipstjóri á stærri skipum við þorskveiðar frá Ísafirði. Rækjuveiðar hóf hann fyrst á Morgunstjörnunni 1975, en ári síðar á báti sem hann hafði keypt og gefið nafn afa síns og nefndi Eirík Finnsson. Haukur var dugandi sjómaður og hlífði sér hvergi. Hann sótti sjóinn af festu og kappi og var hann í röð mestu aflamanna sinnar samtíðar þar vestra. Haukur var nýbúinn að festa kaup á stærri bát sem hann ætlaði raunar að vera byrjaður á við veiðarnar, en atvikin höguðu því þannig til, að það dróst fram yfir þann tíma sem ætlað var.

Haukur var ókvæntur og barnlaus.

Haukur hvílir í votri gröf, en hans er minnst á legstein foreldra hans í Eyrarkirkjugarði á Ísafirði.


Daníel Stefán Jóhannsson, 24 ára, til heimilis að Grundargötu 2 á Ísafirði.

Daníel fæddist þann 12. ágúst 1955 á Ísafirði. Foreldrar hans voru hjónin Jóhann Sigurður Hinrik Guðmundsson (1905-1984) og Ásdís Ásgeirsdóttir (1930-2001). Daníel var kornungur og efnilegur sjómaður sem í nokkurn tíma hafið verið háseti á skuttogara frá Ísafirði. En rúmu hálfu ári áður en hann fórst, langaði hann til að breyta til og starfa á smærri bátum um tíma. Vel fór á með þeim Hauki og Daníel, enda Daníel duglegur sjómaður sem fylgdi skipstjóra sínum fast eftir.

Daníel kvæntist Láru Margréti Lárusdóttur (1958) árið 1977 og áttu þau tvo syni:

 • Lárus Mikael Knudsen Daníelsson (1977).
 • Jóhann Daníel Daníelsson (1980).

Daníel hvílir í votri gröf.Með Vísi BA 44 fórust tveir menn:


Pétur Valgarð Jóhannsson, 44 ára gamall, skipstjóri til heimilis að Dalbraut 18 á Bíldudal.

Pétur fæddist þann 17. ágúst 1935 á Bíldudal. Foreldrar hans voru Jóhann Hafstein Jóhannsson (1885-1969) og Kristín Pétursdóttir (1905-1977). Sjómennskan var Pétri í blóð borin, hans ævistarf og lífsköllun. Á yngri árum stundaði hann um alllangt skeið sjóinn á ýmsum togurum frá Reykjavík, en var alla tíð heimilisfastur á Bíldudal. Arnarfjörðurinn var honum ávallt einkar kær og tryggð hans við sína heimabyggð traust og fölskvalaus. Pétur hafði orð á sér sem afbragðs sjómaður, gætinn og traustur skipstjóri og góður félagi. Hann var hógvær og dagfarsprúður og lagði engum manni illt til.

Pétur átti einn son með Ruth Salómonsdóttur (1936-2014):

 • Guðbergur Pétursson (1953).

Pétur kvæntist Sigríði Stephensen Pálsdóttur (1938-2022) þann 10. september 1959. Þau áttu fjögur börn saman:

 • Páll Ægir Pétursson (1959).
 • Kristín Pétursdóttir (1965).
 • Hannes Sigurður Pétursson (1970).
 • Pétur Valgarð Pétursson (1974).

Pétur hvílir í votri gröf


Hjálmar Húnfjörð Einarsson, 36 ára, háseti til heimilils að Dalbraut 26 á Bíldudal.

Hjálmar fæddist þann 3. nóvember 1943 á Kalmanstjörn í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru hjónin Einar Jónsson (1911-1981) og Guðmunda Margrét Kristjánsdóttir (1915-1994). Hjálmar ólst upp í Vestmannaeyjum hjá föður sínum og stjúpu, Lilju Guðmundsdóttur. Haustið 1955 fór hann til vetrarvistar að Presthúsum í Mýrdal hjá Ingveldi Tómasdóttur og Guðjóni Guðmundssyni. Sú dvöl varð lengri en ætlað og hér átti Hjálmar heimili sitt að mestu þar til hann kvæntist.

Hjálmar kvæntist Margréti Guðnýju Einarsdóttur (1943) árið 1966. Þau áttu fjögur börn saman:

 • Ingveldur Lilja Hjálmarsdóttir (1966).
 • Sverrir Halldór Hjálmarsson (1969).
 • Petrína Guðrún Hjálmarsdóttir (1978).
 • Klara Berglind Húnfjörð Hjálmarsdóttir (1979).

Fóstursonur Hjálmars og sonur Margrétar er:

 • Einar Steinsson (1963).

Hjálmar hvílir í votri gröf.


Heimildir:
MBL 26.02.1980, s. 48
MBL 26.02.1980, s. 29
MBL 28.02.1980, s. 3
MBL 22.03.1980, s. 38
Vesturland 28.03.1980, s. 4
Ægir 01.04.1980 s. 244-245