Hálskirkjugarður við Djúpavog

Staðsetning: Geithellnahr., S-Múlasýslu.
Fjöldi einstaklinga: 
28

Fjöldi legsteinamynda: 
29

Ljósmyndari: Trausti Traustason (2022).
Fjöldi kvenna: 
15

Fjöldi karla: 
13

Meðalaldur:
 
57
ár
Skoða garðinn í gagnagrunninum

Háls í Hamarsfirði var áður fyrr prestssetur. Jörðin var innsta jörðin á nesinu sunnanverðu, nálægt Djúpavogi og þótti virðulegt býli en magurt brauð með fáum ítökum. Síðasti presturinn á Hálsi, séra Jón Einarsson, flosnaði þaðan upp á hörðu vori 1812 eftir þriggja ára veru þar. Frá þeim tíma hefur Háls ekki verið prestssetur, þótt kirkja stæði þar lengur.

Fyrir miðju sést gamli kirkjugarðurinn á Hálsi, en þar mun kirkjan hafa staðið, hægra megin við trén, er sjást. Myndin sýnir einnig gamla þjóðveginn og Strýtu í fjarska.

Í miklu ofveðri, nóttina milli 8. og 9. mars 1892, fauk kirkjan að Hálsi við Hamarfjörð og brotnaði í spón. Sú kirkja hafði verið reist 1864 og 1865. Yfirsmiður hafði verið Haraldur Briem, sá er reisti Berufjarðarkirkju árið 1874. Kirkjan sem áður stóð á Hálsi var byggð árið 1798 úr timbri af kaupmönnum á Djúpavogi og þótti stórt og veglegt hús. Sú kirkja hafði fokið upp úr 1860. Þetta voru ekki fyrstu kirkjur sem risu þarna undir Hálsfjalli, því í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200, er getið kirkju þar, og hún kennd við Andrés postula. Má líklegt telja að kirkja hafi staðið þar frá upphafi kristni í landinu og allt fram til þessarar óveðurnætur 1892.

Á Hálsi rændu Tyrkir 1627, handtóku prestinn, Jón Þorvarðarson og konu hans Katrínu Þorláksdóttur, sem og heimafólk hans, alls 11 manns.

Í Hálskirkjugarði hvíla hjónin Hans Jónatan og Katrín Antoníusdóttir, en Hans Jónatan er talinn vera einn fyrsti svarti maðurinn sem settist að á Íslandi.

Í Hálskirkjugarði hvíla einnig hjónin Ólöf Finnsdóttir og Jón Þórarinsson foreldrar Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og Finns Jónssonar listmálara.

Hálskirkjugarður við Djúpavog var ljósmyndaður af Trausta Traustasyni í júlí 2022, og fær hann kærar þakkir fyrir!

Heimildir:
Múlaþing: byggðasögurit Austurlands 1988, s. 130-131
Tíminn 28.02.1965, s. 177.
Saga 2015, s. 157

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *