Helgi VE-333

Vélskipið Helgi VE 333 var í eigu þeirra hjónanna Helga Benediktssonar, útgerðarmanns og Guðrúnar Stefánsdóttur. Það var smíðað í Vestmannaeyjum árið 1939 og var 119 smálestir að stærð, þá stærsta skip sem hafði verið smíðað á Íslandi.. Á sínum tíma var skipið stolt iðnaðarmanna í Vestmannaeyjum.

[supsystic-gallery id=’10’]

Að morgni 7. janúar 1950 lagði Helgi VE 333 af stað frá Reykjavík til Vestmannaeyja í allhvössu veðri. Þegar komið var að Eyjum, var skollið á illt veður, sem fór versnandi. Stóð vindur af austri og mældist veðurhæðin 15 stig í þann mund er Helga rak á Faxasker. Samkvæmt frásögn sjónarvotta fékk Helgi á sig mikið brot þegar hann var kominn skammt austur fyrir Faxasker. Vél skipsins virðist hafa bilað og það hrakti á örfáum mínútum að Skelli sem er skammt austan skersins. Skipverjum tókst að koma vélinni í gang og Helgi byrjaði að vinda sig gegn veðrinu. En vélin stöðvaðist aftur og skipti þá engum togum að skipið lenti á Skelli og brotnaði í spón á örfáum mínútum.

Þennan dag voru 10 manns um borð á Helga, sjö manna áhöfn og þrír farþegar sem höfðu verið með bátnum. Tveir skipverjar, þeir Gísli Jónasson stýrimaður og Óskar Magnússon háseti, náðu að komast upp í skerið, að því er virtist með því að stökkva af bátnum um leið og hann bar að skerinu, en að því er ákaflega aðdjúpt og brimið við skerið svo mikið að ólíklegt að þeir hafi bjargast upp á það á sundi. Vegna sjógangs og veðurofsa tókst ekki að komast til þeirra fyrr en að liðnar voru um 40 klukkustundir frá því Helgi fórst, en þá voru þeir báðir látnir.


Þeir sem fórust voru:

Hallgrímur Júlíusson, skipstjóri, 43 ára gamall frá Bolungarvík. Hann var kvæntur, átti tvö börn, 5 og 7 ára, og þrjú stjúpbörn.

Hallgrímur var fæddur að Hóli í Bolungarvík. Hann réri með föður sínum sem drengur og var formaður á róðrabát 12 ára gamall um sumar. Eftir fermingu stundaði hann sjó á mótorbátum frá Bolungarvík og Súgandafirði. Síðar var hann á línuveiðurum, þar til hann réðst á togara frá Reykjavík 1928. Lengst af á Baldri.

Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1932. Árið 1940 fluttist hann til Vestmannaeyja og réðist stýrimaður á Helga og síðar skipstjóri á sama skipi, það var 1941. Árið 1945, að styrjaldarlokum, veitti borgarstjórinn í Fleetwood honum og skipshöfn hans sérstakar heiðursmóttökur, til að þakka þá atorku, þrek og hugrekki, sem skipverjar á Helga höfðu sýnt í millilandasiglingum á styrjaldarárunum. Hafði Helgi þá farið 120 ferðir yfir hafið milli Íslands og Bretlands og siglt um 150 þúsund sjómílur til að færa Bretum björg í bú. Um áramótin 1950 hafði skipið farið samtals um 200 ferðir milli þessara landa.

Hallgrímur stundaði síldveiðar á Helga með herpinót á sumrum og síðar í vöruflutningum milli Eyja og Reykjavíkur um árabil.

Gísli Þorlákur Jónasson, stýrimaður, 32 ára gamall ættaður frá Siglufirði, ókvæntur og barnlaus.

Gísli Þorlákur Jónasson fæddist að Nefstöðum í Fljótum í Skagafjarðarsýslu 25. september 1917. Átti Gísli til góðra búþegna að telja í báðar ættir og kjarna fólks. En sjómannsblóð rann einnig í æðum hans. Var afi hans, Jón á Brúnastöðum, frábær sjómaður og svo voru fleiri móðurfrændur hans. Einn þeirra, afabróðir, var Guðmundur ,,Vonarkapteinn” einn kunnasti hákarlaskipstjóri norðanlands um sína daga.

Foreldrar Gísla brugðu búi er hann var enn barn að aldri og fluttu til Siglufjarðar, en Gísli ólst að nokkru upp í sveit fram um fermingaraldur, var þó öðrum þræði í foreldrahúsum. Ungur að aldri fór hann í héraðsskólann í Reykholti og var þar tvo vetur við nám.

Sjórinn heillaði Gísla, eins og marga vaska og tápmikla sveina þessa lands, fyrr og síðar. Ungur steig hann á skipsfjöl og á sjónum var ævistarfið unnið. Hann lauk skipstjóraprófi 1945 og varð þá þegar stýrimaður og æ síðan, nema eitt sumar, er hann hafði skipstjórn á hendi. Var hann ávallt stýrimaður hjá sama skipstjóranum, Arnþóri Jóhannssyni, hinum þjóðkunna aflamanni.

Sýnir það glöggt hvert álit Arnþór hafði á hinum unga manni, að hann réði hann stýrimann á skip sitt sama vorið og hann lauk prófi, og beið með skip sitt aðgerðarlaust í höfn dögum saman, uns Gísli hafði lokið prófinu og komist norður til Siglufjarðar.

Gísli hafði verið stýrimaður á vélskipinu Helga Helgasyni frá Vestmannaeyjum, en hafði um stundarsakir og til bráðabirgða verið stýrimaður á Helga VE 333. Mun þetta hafa átt að vera síðasta ferð hans með því skipi. Eins og minnst er á að ofan, náði Gísli að komast upp í Faxasker, en vegna sjógangs og veðurofsa tókst ekki ná til hans meðan hann var á lífi.

Jón Bjarni Valdimarsson, 1. vélstjóri, 34 ára gamall, fæddur í Neskaupstað. Kvæntur og átti eitt barn á öðru ári.

Gústaf Adólf Runólfsson, 2. vélstjóri, 27 ára gamall. Kvæntur og átti fjórar ungar dætur.

Gústaf Adólf Runólfsson fæddist á Seyðisfirði 26. maí 1922, en fluttist til Vestmannaeyja barn að aldri. Gústaf stundaði alla almenna vinnu, var verkamaður og sjómaður, einnig bílstjóri um skeið og svo vélstjóri, bæði á sjó og í landi. Var hann talinn góður vélstjóri.

Hálfdan Brynjar Brynjólfsson, matsveinn, 23 ára gamall. Nýkvæntur, gifti sig á gamlársdag viku áður.

Sigurður Ágúst Gíslason, háseti, 26 ára gamall. Ókvæntur en hafði fyrir aldraðri móður að sjá.

Óskar Magnússon, háseti, 22 ára gamall. Ókvæntur.

Óskar náði að komast upp í Faxasker, en vegna sjógangs og veðurofsa tókst ekki ná til hans meðan hann var á lífi.

Arnþór Jóhannsson, farþegi, 42 ára gamall. Lét eftir sig eiginkonu og þrjú börn.

Arnþór Jóhannsson skipstjóri, var fæddur 12. mars að Selá á Árskógsströnd í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Björg Arngrímsdóttir og Jóhann Sigurðsson, bóndi þar. Arnþór ólst upp í föðurgarði og byrjaði ungur sjómennsku við hinn fagra og fengsæla Eyjafjörð.

Strax og kraftar leyfðu, fór hann að sækja á úthafsmið, bæði á mótorbátum og togurum, eftir því sem henta þótti um atvinnu þeirra tíma. Árið 1925 lærði hann til hins minna fiskimannaprófs hjá hinum landskunna kennara Sigurði Sumarliðasyni, skipstjóra, og tók próf það ár.

1928 byrjaði hann formennsku á m.b. Einari frá Akureyri. Í þá daga var það mjög eftirsótt að vinna hjá útgerð þeirra Einars Einarssonar og Einars Malmquist, enda var hjá þeim sannkallað valmennisfólk, bæði á sjó og í landi.

Þegar í byrjun reyndist hann með afbrigðum aflasæll. 1931 byrjaði hann skipsstjórn á síldveiðiskipi með herpinót og síðar var allri þjóðinni kunn aflasæld hans. Arnþór og m.s. Dagný verða lengi í huga og á vörum þess fólks, sem ann síldveiðum og sjómennsku.

Frá því hið glæsilega skip ,,Helgi Helgason” var fullbyggður var hann skipstjóri þar og var, þegar hann lést, á leið til skips.
Arnþór tók fiskimannapróf við Stýrimannaskóla Íslands 1942. Hann átti í útgerð, bæði mótorbáts og síldveiðiskips, og þekkti því vel inn á útgerðarsögu þjóðarinnar af eigin reynd. Hann var greindur maður og athugull og valdi sér þann sið valmenna, að hafa og segja það eitt er sannara reyndist.

Séra Halldór Einar Johnson, farþegi, 64 ára gamall. Lét eftir sig eiginkonu og stjúpdóttur í Vesturheimi.

Kom til Íslands sumarið áður, eftir 40 ára dvöl í Vesturheimi og var kennari í Vestmannaeyjum þennan vetur.

Þórður Bernharðsson, farþegi, 16 ára gamall.

Þórður Bernharðsson fæddist í Ólafsfirði 11. maí 1933. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Guðmundsdóttir og Bernharð Ólafsson, og var hann elstur fimm barna þeirra. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum og byrjaði snemma að hjálpa þeim, að sjá heimilinu farborða, eins og títt er um hina ungu þegna í ríki starfsins.

Faðir hans var sjómaður og Þórður heitinn hvarf strax um fermingaraldur eða fyrr, inn á sömu brautir. Þótt hann væri aðeins sextán ára þegar hann féll frá, hafði hann verið þrjú sumur á síldveiðum – sumarið áður en hann dó, á vélskipinu Dagnýju.

Í ársbyrjun 1950 kvöddu Þórður og systir hans, 15 ára gömul, foreldra sína og héldu með skipi suður á land til að vinna fyrir sér. Í Reykjavík skildu leiðir – systir hans Freyja, hélt suður með sjó, þar sem hún hafði vistast, en Þórður heitinn lagði af stað til Eyja. Þar var hann ráðinn í vinnu yfir vertíðina hjá Fiskvinnslustöðinni og ætlaði að dvelja hjá hálfsystur sinni, Aðalheiði Pétursdóttur og manni hennar, Sveini Hjörleifssyni í Skálholti. Sú för endaði fyrr og með öðrum hætti en nokkurn varði.

Heimildir:
Eyjablaðið 21.01.1950, s. 4
Eyjafréttir 13.01.2000, s. 13.

Fálkinn 20.01.1950, s. 2
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.1950, s. 36
Sjómannablaðið Víkingur 01.12.1966, s. 298, 290
Tíminn 20.01.1959, s. 3
Ægir 01.01.1950, s. 6

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *