Kútter Geir

Kútter Geir var smíðaður í Grimsby árið 1887 og seldur til Íslands um aldamótin 1900. Kaupandinn var Geir Zoëga kaupmaður og útgerðarmaður í Reykjavík. Geir seldi kútterinn árið 1908 til Sjávarborgar hf. í Hafnarfirði. Sjávarborg var í eigu þeirra Ágústs Flygenrings, kaupmanns í Hafnarfirði, Ásgeirs Sigurðssonar, kaupmanns í Reykjavík (sem kenndur var við Edinborgarverslunina), og Gísla J. Johnsen, kaupmanns og útgerðarmanns í Vestmannaeyjum.

kutter georg
Kútter Geir

Kútter Geir, sem var eitt stærsta og glæsilegasta þilskip Íslendinga á sínum tíma, 88 tonn, lagði úr höfn í sina hinstu ferð frá Hafnarfirði þann 11. febrúar 1912. Þann 22. febrúar gerði austan foráttuveður sem stóð fram á miðjan dag 23. febrúar og eftir það sást ekki til skipsins. Í Vestmanneyjum mældist vindstyrkurinn 11 stig. Þegar skipið skilaði sér ekki til hafnar í marsmánuði var það talið af.

Með kútter Geir fórst 27 manna áhöfn. Slysið var er eitt það mannskæðasta á þilskipaöldinni og við það varð fjöldi barna föðurlaus. Að auki höfðu margir úr áhöfninni fyrir öldruðum foreldrum að sjá. Afkomendur sjómannanna sem fórust með Geir eru þegar þetta er skrifað (mars 2023) vel yfir 3000.

Ef þið eigið myndir af einhverjum skipverjanna, megið þið endilega senda mér svo ég geti bætt þeim við hér.


Sigurður Þórðarson, 33 ára, skipstjóri, til heimilis í Reykjavík.

Sigurður var fæddur þann 12. maí 1878 að Eyjahóli í Kjósarhr.,Kjós. Hann lét eftir sig ekkju og 4 börn í ómegð.

Sigurður var þaulvanur sjómaður, hafði verið skipstjóri í 12 ár, hinn vaskasti maður og góður drengur.

Sigurður hvílir í votri gröf.


Halldór Jónsson, 22 ára, stýrimaður, til heimilis að Njálsgötu 33 í Reykjavík.

Halldór var fæddur þann 21. júlí 1889 að Þóroddsstöðum í Grímsneshr., Árn. Hann var ókvæntur. Hann hafði ekki ætlað að fara í þessa ferð, en lét til leiðast í forföllum annars manns. Faðir hans var heilsulaus ekkill með 4 börn ófermd. Vonir voru bundnar við að Halldór yrði fyrirvinna heimilisins ásamt föður sínum næstu árin, enda hafði hann aflað sér menntunar í Stýrimannaskólanum. Það var því mikið áfrall þegar hann drukknaði, rúmu ári eftir andlát móður hans og ömmu.

Halldór hvílir í votri gröf.


Sverrir Guðmundsson, 26 ára, háseti, frá Harðbala í Kjósarhr., Kjós.

Sverrir var fæddur þann 13. september 1885 að Útskálahamri, Kjósarhr.,Kjós. Hann var einhleypur.

Sverrir hvílir í votri gröf.


Guðjón Magnússon, 24 ára, háseti frá Kirkjuvegi 6 (Daðakoti) í Hafnarfirði.

Guðjón var fæddur þann 5. nóvember 1887 í Hafnarfirði. Hann var einhleypur og til heimilis hjá foreldrum sínum.

Guðjón hvílir í votri gröf.


Guðmundur Árnason, 42 ára, háseti frá Bíldudal.

Guðmundur var fæddur þann 10. júní 1869 í Tunguhaga, Vallahr., S-Múl. Hann lét eftir sig eiginkonu og son.

Guðmundur hvílir í votri gröf.


Jón Kristján Jónsson, 27 ára, háseti frá Skógum í Auðkúluhr., V-Ís.

Jón Kristján var fæddur þann 20. febrúar 1885 að Skógum í Auðkúluhr., V-Ís. Hann var einhleypur.

Jón Kristján hvílir í votri gröf.


Jóhann Ólafur Guðmundsson, 48 ára, háseti frá Horni í Auðkúluhr., V-Ís.

Jóhann var fæddur þann 26. júní 1863 að Horni í Auðkúluhr., V-Ís. Hann var kvæntur og var kona hans ólétt að 17. barni þeirra – af þeim komust 10 á legg.

Jóhann Ólafur hvílir í votri gröf.


Ólafur Sigurðsson, 39 ára, háseti frá Langholti í Hraungerðishr., Árn.

Ólafur var fæddur þann 1. september 1872 að Langholti í Hraungerðishr., Árn. Hann var einhleypur.

Ólafur hvílir í votri gröf.


Magnús Pétursson, 32 ára, háseti frá Grettisgötu 28 í Reykjavík.

Magnús var fæddur þann 14. október 1879 að Ingunnarstöðum, Kjósarhr.,Kjós. Hann var kvæntur og átti unga dóttur.

Magnús hvílir í votri gröf.


Kristján Guðmundur Einarsson, 28 ára, háseti frá Austurhverfi 3 í Hafnarfirði.

Kristján var fæddur 27. nóvember 1883 að Meiri-Bakka, Hólshr., N-Ís. Hann var kvæntur og áttu þau hjónin 3 börn saman, það elsta 6 ára. Fjórða barnið fæddist í september sama ár og kútter Geir fórst.

Kristján hvílir í votri gröf.


Þórður Ingimundarson, 26 ára, háseti frá Tjörn í Vatnsleysustrandarhr., Gull.

Þórður var fæddur þann 24. mars 1885 í Atlagerði í Vatnsleysustrandarhr., Gull. Hann átti unnustu og fæddist þeim sonur í ágúst sama ár og kútter Geir fórst.

Þórður hvílir í votri gröf.


Ólafur Nikulásson, 46 ára, háseti, til heimilis í Merkurgötu 11 í Hafnarfirði.

Ólafur var fæddur þann 22. mars 1865 að Nýlendu í Garði, Gerðahr., Gull. Hann var kvæntur og lét eftir sig 5 börn.

Ólafur hvílir í votri gröf.


Guttormur Einarsson, 49 ára, háseti, til heimilis að Kirkjuvegi 15 í Hafnarfirði.

Guttormur var fæddur þann 12. júlí 1862 að Götu í Holtahr., Rang. Hann var kvæntur og lét eftir sig tvær dætur.

Guttormur hvílir í votri gröf.


Guðni Benediktsson, 32 ára, háseti, til heimilis i Hafnarfirði.

Guðni var fæddur þann 19. ágúst 1879 í Oddakoti í Bessastaðahr., Gull. Hann var kvæntur og lét eftir sig fjögur ung börn.

Guðni hvílir í votri gröf.


Þorvaldur Ásgeir Jóhannesson, 27 ára, háseti til heimilis að Alviðru í Mýrahr., V-Ís.

Þorvaldur var fæddur þann 19. nóvember 1884 í Leiti, Mýrahr., V-Ís. Hann lét eftir sig aldraða foreldra.

Þorvaldur hvílir í votri gröf.


Þorkell Guðmundsson, 28 ára, háseti, til heimilis að Miðsundi 3 í Hafnarfirði.

Þorkell var fæddur þann 15. október 1883 á Syðra-Velli, Gaulverjabæjarhr., Árn. Hann var kvæntur og lét eftir sig 4 börn.

Þorkell hvílir í votri gröf.


Böðvar Jónsson, 54 ára, háseti, til heimilis að Suðurgötu 3 í Hafnarfirði.

Böðvar var fæddur þann 27. júlí 1857 að Uppsölum í Hálsahr., Borg. Hann var ekkill, kona hans lést árið 1903 og saman áttu þau 5 börn á lífi. Eitt af þeim, sonurinn Jón Halldór (sjá hér fyrir neðan) fórst einnig með kútter Geir.

Böðvar hvílir í votri gröf.


Jón Halldór Böðvarsson, 20 ára, háseti til heimilis að Suðurgötu 3 í Hafnarfirði.

Jón Halldór var fæddur þann 25. desember 1891 að Teigakoti á Akranesi. Hann var einhleypur og faðir hans, Böðvar Jónsson (sjá hér fyrir ofan) fórst einnig með kútter Geir.

Jón hvílir í votri gröf.


Helgi Árnason, 53 ára, háseti, frá Eiði á Seltjarnarnesi.

Helgi var fæddur þann 11. janúar 1859 í Hólakoti í Bessastaðahr., Gull. Hann var kvæntur og lét eftir sig tvo syni. Yngri sonur hans, Ingólfur Björgvin, fórst með norska skipinu DS Jamaica við strendur Portúgals 1. janúar 1915. Hann var þá 17 ára.

Helgi hvílir í votri gröf.


Sólon Einarsson, 32 ára, háseti frá Bergen í Hafnarfirði.

Sólon var fæddur þann 11. júní 1879 í Bursthúsum í Miðneshr., Gull. Hann var kvæntur og lét eftir sig þrjú börn.

Sólon hvílir í votri gröf.


Ingvar Pétursson, 30 ára, háseti frá Kirkjuvegi 14 í Hafnarfirði.

Ingvar var fæddur þann 30. apríl 1881 í Tumakoti í Vatnsleysustrandarhr., Gull. Hann var kvæntur og lét eftir sig þrjú börn.

Ingvar hvílir í votri gröf.


Jóhannes Jóhannesson, 20 ára, háseti frá Merkurgötu 9 í Hafnarfirði.

Jóhannes var fæddur þann á 18. júlí 1891 á Spena, Fremri-Torfustaðahr., V-Hún.. Hann var einhleypur.

Jóhannes hvílir í votri gröf.


Marteinn Kristján Guðlaugsson, 30 ára, háseti frá Hafnarfirði.

Marteinn fæddist þann 22. nóvember 1881 að Hokinsdal, Auðkúluhr., V-Ís. Hann lét eftir sig eiginkonu sem fæddi son 4. júní sama ár og Geir fórst.

Marteinn hvílir í votri gröf.


Sigurður Jónasson, 49 ára, háseti,

Sigurður var fæddur þann 10. janúar 1863 að Tjörnum undir Eyjafjöllum í Vestur-Eyjafjallahr., Rang. Hann var kvæntur og áttu þau hjónin 8 börn saman á aldrinum 1 árs til 12 ára. Ásmundur sonur þeirra, fórst síðar með Reykjaborg RE 64.

Sigurður hvílir í votri gröf.


Magnús Sigurgeirsson, 28 ára, háseti frá Hvassahrauni í Vatnsleysustrandarhr., Gull.

Magnús var fæddur þann 24. apríl 1883 á Höfða í Sauðaneshr., N-Þing. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Magnús hvílir í votri gröf.


Vilmundur Jónasson, 22 ára, háseti frá Vesturhverfi 3 í Hafnarfirði.

Vilmundur var fæddur þann 4. desember 1889 í Klofa í Hafnarfirði. Hann var ókvæntur og barnlaus en var einkabarn foreldra sinna og stoð þeirra og stytta.

Vilmundur hvílir í votri gröf.


Guðjón Jónsson, 19 ára, háseti frá Bíldudal.

Guðjón var fæddur þann 17. september 1892 að Tungu, Tálknafirði. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Guðjón hvílir í votri gröf.


Heimildir:
Friðrik Skúlason.
Ísafold 23.03.1912, s. 65
MBL 23.02.2012, s. 24.
Sjómannadagsblaðið 03.06.2012, s. 26.
Ægir 01.03.1912, s. 36-37.