Legsteinn Vigfúsar Schevings og Önnu Stefánsdóttur í Viðeyjarkirkjugarði

Þessi grein er að stórum hluta byggð á grein Sigurjóns Páls Ísakssonar með sama heiti, sem birtist í Skagfirðingabók árið 1990 (sjá hér). Ég vil þakka Sigurjóni fyrir að leyfa mér að nota greinina hér á síðunni.

Í Viðeyjarkirkjugarði hvíla Vigfús Scheving Hansson og kona hans Anna Stefánsdóttir. Vigfús var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal, sonur Hans Scheving, klausturhaldara á Möðruvöllum, og konu hans Guðrúnar Vigfúsdóttur. Hann varð stúdent úr Hólaskóla 1754 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1757. Vigfús var m.a. sýslumaður í Hegranesþingi (sem seinna nefndist Skagafjarðarsýsla), eða frá 21. febrúar 1772 til 21. maí 1800.

Anna kona Vigfúsar var dóttir Stefáns Ólafssonar prests á Höskuldsstöðum og fyrri konu hans, Ragnheiðar Magnúsdóttur. Vigfús og Anna bjuggu lengst af á Víðivöllum í Blönduhlíð en eftir að hann fékk lausn frá embætti brugðu þau búi og fóru til Guðrúnar dóttur sinnar og Magnúsar Stephensen dómstjóra sem þá (1804) bjuggu á Innra-Hólmi. Þegar Magnús og Guðrún fluttust til Viðeyjar með sitt skyldulið, fylgdu Vigfús og Anna með, og þar báru þau beinin, Vigfús árið 1817 og Anna þremur árum síðar.

vigfusschevingannastefansdottirvidey
Mynd tekin 29. júní 1989 af Sigurjóni Páli Ísakssyni
legstvigfusarschevingkantur

Legsteinn Vigfúsar og Önnu var staðsettur við kirkjuhornið á Viðeyjarkirkju, a. m. k. um 1989/1990 þegar Sigurjón Páll Ísaksson skrifar um hann, og skv. þeim sem þekktu til hafði steinninn alltaf verið þar.

Steinninn var 96 cm x 194 cm að stærð og örugglega innfluttur. Á brúnum hans var mótaður kantur (sjá teikningu), og í hverju horni kringlótt hola, 11,5 cm í þvermál, sem skrautsteinar í öðrum lit hafa verið felldir í. Þeir eru nú allir veðraðir úr. Sigurjón Páll veltir því fyrir sér í grein sinni hvort að Magnús Stephensen hafi pantað steininn í utanför sinni til Kaupmannahöfn 1825-1826.

Áletrunin var með latrínuletri, upphafsstöfum, stafastærð 28 mm, nema í nöfnunum, 41 og 39 mm. Vísan (og línan þar á eftir) var þó með lágstöfum (skáletri). Áletrunin var svo fagmannlega meitluð í steininn, að telja verður víst, að það hafi verið gert á verkstæði erlendis, en eflaust undir eftirliti Íslendings.

Þegar Sigurjón Páll tók mynd af steininum árið 1989 var, eins og hann skrifar “talsvert farið að brotna upp úr steininum, og er áletrunin orðin all gloppótt.” Hann fór í það að finna út úr því hver áletrunin væri og fann greinagerð eftir Sveinbjörn Rafnsson prófessor, frá 1. ágúst 1969. Sveinbjörn hafði hreinsað steinana í júlí 1969 og teiknað upp. Hann hafði ekki ekki gert neina tilraun til að fylla í eyðurnar, en “uppskrift hans er þó ómetanleg af því að þar sjást stafir, sem horfið hafa á þeim 20 árum, sem síðan eru liðin.”

teikningaflegsteinvigfusscheving
Teikning Sveinbjörns Rafnssonar frá 1969 af legstein Vigfúsar Scheving

Sigurjón Páll hefur hinsvegar farið í það að fylla í eyðurnar og hann telur áletrunina vera eftirfarandi (eyðufyllingar í svigum):

HVÍLIR. UND(. S)TEINI.
HÖFDÍNGIA. P(R)ÝDI.
VIGFÚS. SCHEVÍNG
VALDSMADUR. KONÚNGS.
UM. ÁR. ÞRIÁTÍU.
Í. AMTI. NYRDRA
(FÆDDUR 1)5. IAN. 1735. GIPTUR. 1760.
(AF)BRAGDI. QVENNA.
(AUNNU.) STEPHÁNSDÓTTUR
(VINSTRI. SEM. HIER.) BLUNDAR.
(VID. HA)NS. SÍDU.
F(ÆDD. HÚN.) VAR. 15. DEC. 1729.
B(ÆDI.) BÖRNUM. SEX.
B(ESTA. FORELD)RI
VID. HEIM. SKILDU. AD. VIDEYARKLAUSTRI
HANN. 14(. DEC). 1817. HÚN. 30. OCT. 1820.
———————
Ordstýr blómgast, hold þó folni, fagur
fióld gódverka hvar í tíd er s(ád)
ædra krýnir uppskerunnar dag(ur)
æru=kransi þá svo ræktu (d)á(d).
———————
Svo minnist dain(na ten)gdaforeld(ra)
DR. MAGN(Ú)S S(TEP)HENSE(N)

Það má með vissu segja að vinna þeirra Sveinbjörns Rafnssonar og Sigurjóns Páls Ísakssonar við að rannsaka þennan legstein sé ómetanleg. Ástand steinsins núna er því miður orðið það slæmt að næstum ekkert er hægt að lesa af áletrununum sem áður prýddu steininn. Steinninn hefur nú verið færður inn og áætlað er að farið verði að gera við hann vorið 2022.

Legsteinn Vigfusar Scheving 2021
Mynd frá Ingibjörgu Áskelsdóttur, tekin 2021.

Heimildir:
Legsteinn Vigfúsar Schevings í Viðeyjarkirkjugarði eftir Sigurjón Pál Ísaksson. Skagfirðingabók 01.01.1990, s. 151-161
Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940, 5. bindi, s. 58.
Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags, 01.10.1882, s. 257
Kirkjur Íslands 19. .bindi, s. 179