Már VE 178

Smíðin á vélbátnum Má VE 178 hófst vorið 1914 í Tangafjöru í Vestmannaeyjum. Gekk allt að óskum og var báturinn tilbúinn þá um haustið. Yfirsmiður var Guðmundur Jónsson á Háeyri og voru eigendurnir Bernódus Sigurðsson og Gísli Lárusson. Már var um 11 tonn, með 12-15 hestafla Alfavél, sem var önnur sú fyrsta, sem kom til eyja og var Már einn stærsti báturinn á þessum tíma en jafnframt vel byggður.

Fimmtudaginn 12. febrúar 1920 réri fjöldi báta í góðu sjóveðri um morguninn. Er líða fór á daginn tók að hvessa af austri og spilltist þá sjórinn á svipstundu. Í Vestmanneyjum var veður þó ekki það slæmt og datt mönnum ekki slys í hug, en suður í sjó var veðrið miklu verra, að sögn sjómanna, kvikan kröpp og harðtæk og straumur stríð-fallandi. Misstu flestir nokkuð af veiðarfærum sínum og sumir misstu meirihlutann. Síðari part dagsins þótti ekki lengur fært að fást við veiðarfæri og héldu menn heim eins hratt og hægt var.

Um kvöldið voru allir bátar komnir heim nema vélbáturinn Már. Hafði sést til hans um daginn þar sem hann var að leita veiðarfæra eins og aðrir, og vissu menn ekki frekar til hans. Seint um kvöldið var þó fenginn breskur togari, og kunnugir menn úr landi, til að leita og fóru þeir þangað er líklegast þótti, en bæði var það myrkur var skollið á og éljagangur, og svo hitt að líklegt þótti að báturinn kynni að hafa komist heim meðan á leitinni stóð. Var svo leitinni hætt um sinn.

Mar VE 178
Már VE 178

Morguninn eftir var Már enn ókominn, var þó gott veður og byr hagstæður. Voru þá enn fengnir tveir togarar og kunnugir menn úr landi til að leita betur. Leituðu þeir allan daginn til kvölds í björtu veðri en fundu ekkert. Eftir það þótti mönnum öll von úti um að Már væri ofansjávar. Talið var að hann hafi farist skammt suður af Vestmanneyjum, er hann fékk á sig brotsjó, sem kæfði hann niður.

Í áhöfn Más voru fjórir menn og fórust þeir allir. Þeir voru:


Bernódus Sigurðsson, 35 ára, formaður og útgerðarmaður í Vestra-Stakkagerði í Vestmannaeyjum.

Bernódus fæddist þann 23. apríl 1884 í Selshjáleigu í Austur-Landeyjahr., Rang. Bernódus byrjaði ungur sjóróðra við Landeyjasand á opnu skipi, síðan í Vestmannaeyjum og svo á skútu frá Reykjavík, en 1908 fer Bernódus alfarinn til Vestmannaeyja og fer þá með mótorbát með sér frá Reykjavík sem han hafði pantaði frá Danmörku ásamt fleiri Landeyingum. Bátur þessi hét Björgvin og byrjaði Bernódus formennsku á honum 1909 og er með hann til vertíðarloka 1914, er hann þá lét smíða vélbátinn Má.

Bernódus sótti sjóinn fast og var alla sína formannstíð toppmaður í Eyjum, þótt hann yrði ekki aflakóngur. Hann var traustur og athugull maður. Sagt var að hann hefði getað keypt 8 mótorbáta og átt þá skuldlausa og má segja að það sé góð afkoma eftir 12 ára formennsku.
Hann lét eftir sig eiginkonu og ungan son.

Bernódus hvílir í votri gröf en legsteinn hans (í minningu hans) og konu hans er í Vestmannaeyjakirkjugarði.


Gísli Þórðarson, 23 ára, frá Dal í Vestmannaeyjum.

Gísli fæddist þann 10. júní 1896 í Ámundakoti, Fljótshlíðarhr., Rang. Hann var bróðir Jóhönnu konu Bernódusar. Magnús bróðir Gísla fórst með Fram VE 176 14. janúar 1915.

Skömmu eftir lát föður hans, þegar Gísli var 7 ára, fluttist fjölskyldan til Vestmannaeyja. Byrjaði hann fljótt að vinna við útveg Magnúsar bróður síns og var beitumaður hjá honum. Eftir að Magnús fórst, fór Gísli til Bernódusar á Má. Gísli þótti hinn mesti dugnaðarmaður. Hann lét eftir sig ekkju og tvö ung börn (annað vikugamalt).

Gísli hvílir í votri gröf.


Guðmundur Sigurðsson, 26 ára, vélamaður til heimilis í Stakkagerði í Vestmannaeyjum.

Guðmundur fæddist 12. ágúst 1893 að Syðstu-Grund í Vestur-Eyjafjallahr., Rang. Upp úr fermingu fór Guðmundur til sjóróðra í Vestmannaeyjum, eins og fjöldinn af Eyfellingum í þann tíð. Fór hann á útveg Gísla Lárussonar; fyrst á Frí og síðar á Má og var orðinn vélamaður á þeim báti. Guðmundur var harðsnúinn maður, allstaðar eftirsóttur og ávallt með fyrstu mönnum hvort sem var á sjó eða landi. Hann var ókvæntur og barnlaus. 

Guðmundur hvílir í votri gröf.


Finnur Helgi Sigurður Guðmundsson, 22 ára, til heimilis í Stakkagerði í Vestmannaeyjum.

Finnur var fæddur þann 12. apríl 1897 í Pétursey í Dyrhólahr., V-Skaft. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum og átti heima hjá þeim alla æfi. Þó dvaldi hann 7 síðustu vertíðir í Vestmannaeyjum ávallt í sama stað, hjá sæmdarhjónunum Gísla Lárussyni frænda sínum og Jóhönnu Árnadóttur konu hans, og var hann þar ætíð sem í góðum foreldrahúsum. Finnur var ókvæntur og barnlaus. 

Finnur hvílir í votri gröf.


Heimildir:
Blik 01.05.1957, s. 117
Ægir 01.01.1920, s. 19-20.
Skeggi 21.02.1920, s. 1

Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1970/ Þegar Már VE 178 fórst – Heimaslóð (heimaslod.is)
Tíminn 15.05.1920, s. 72-73