Minnismerki á Bíldudal yfir seglskútuna Gyðu

24. júlí 1954 var afhjúpað minnismerki á Bíldudal yfir þá sem fórust með seglskipinu Gyðu, en hún fórst 23. apríl 1910, að því að talið er við mynni Arnarfjarðar. Ef þig langar að lesa meira um Gyðu og áhöfn hennar, þá má benda á þessa grein hér.

Þessi dagur hafði verið valinn vegna þess að þetta var aldarafmæli Péturs J. Thorsteinsson útgerðarmanns, en hann gerði einmitt út Gyðu. Í nóvember 1953 fá Gunnar Jóhannsson og Kristinn Ásgeirsson á v.b. Frigg, stórt siglutré í vörpuna. Eftir mikið erfiði tókst þeim að ná siglutrénu og koma því til hafnar á Bíldudal. Urðu sjómenn frá „skútuöldinni“ fljótt sammála um að þetta siglutré væri úr Gyðu. Þegar nokkrum þeirra, sem nákomna ættingja höfðu átt á Gyðu, varð þetta kunnugt, ákváðu þeir að siglutréið skyldi verða sá minnisvarði, sem um ár og aldir minnti á þessa ástvini þeirra. Og því varð siglutréið hluti af minnisvarðanum.

Sá sem mest vann að þessu minnismerki var Árni Jónsson stórkaupmaður í Reykjavík. Hann átti að því frumhugmyndina og stóð fyrir öllum framkvæmdum

Þorkell Erlingsson, sonar-sonur Þorkels Kristjáns Magnússonar skipstjóra Gyðu, afhjúpaði minnismerkið.

Árið 2003 var mastur Gyðu orðið lélegt og því endunýjað með mastri Katrínar BA sem úreld var árið 1993 og brennd í Fossafirði. Mastur Katrínar hafði verið tekið úr skipinu og sett í geymslu áður en skrokkur hennar var brenndur. Mastrið er 11 metra hátt, líkt og gamla mastrið af Gyðu.

Minnismerki á Bíldudal yfir þá sem fórust með seglskipinu Gyðu

 

 

Seglskipið „Gyða“
Eigandi: Pétur J. Thorsteinsson. Bíldudal
Skipið fórst með allri áhöfn
10. apríl 1910.
Skipverjar voru þessir:
Þorkell Kristján Magnússon.
Frá Bíldudal. F. 22. ágúst 1864, skipstjóri.
Magnús Þorkelsson.
Frá Bíldudal. F. 7. júlí 1891, stýrimaður.
Einar Jóhannesson. Frá Hallsteinsnesi.
F. 22. júlí 1877, háseti.
Ingimundur Loftsson. Frá Fossi.
F. 26. apríl 1850, háseti.
Jóhannes Leopold Sæmundsson.
Frá Vaðli, Brjánslæk, F. 15. nóv. 1879, háseti.
Jón Jónsson frá Bíldudal.
F. 19. okt. 1890, háseti.
Jón Jónsson. Frá Hokinsdal.
F. 23. ágúst 1855, háseti.
Páll Jónsson. Frá Otradal.
F. 2. ágúst 1893, háseti.

 

Skipsmastur þetta kom upp í rækju-
troll hjá m.b. Frigg í nóv. 1953. – Er
það talið vera úr seglskipinu „Gyðu“.
Mastur þetta var reist sumarið 1954.

 

 

Myndirnar tók Inga Aradóttir og fær hún kærar þakkir fyrir.

Minnismerkið stendur milli Bíldudalsskóla og Lönguhlíðar (sjá kort).

Minnismerki yfir þá sem fórust með Gyðu

Hér fyrir neðan má lesa lýsingu á minningarháíðinni á Bíldudal þegar minnismerkið var afhjúpað þann 24. júlí 1954. Lýsing þessi birtist í Safnaðarblaðinu Geisla 01.09.1954.