Sæborg EA 383

Mb. Sæborg var stálskip smíðað í Noregi 1902. Eigendur skipsins voru þeir feðgarnir Jörundur Jörundsson og Guðmundur Jörundsson útgerðarmenn í Hrísey. Fyrr á árinu 1942 hafði það verið yfirbyggt og sett í það Lister díselvél. Eftir það var báturinn sagður vera 73 tonn. Vélsmiðjan Oddi á Akureyri annaðist verkið, sem var unnið í gamla slippnum sunnan við Torfunesbryggju. Skipt var um plötur og bönd í skrokknum, þar sem þurfa þótti, en erfitt var um efni á stríðsárunum. Díselvélin var léttari, og þyngd hennar lagðist öðruvísi í skipið en gufuvélin með sínum gufukatli og kolaboxum.

Sæborg EA 383 – Mynd fengin hjá Antoni Steinarssyni

Sæborg var grænmáluð með hvítu stýrishúsi. Áður hafi þessi bátur verið gerður út frá Vestmennaeyjum og þá í eigu Helga Benediktssonar útgerðarmanns þar. Hét hann þá Gunnar Jónsson VE 284. Síðar eignuðuðst menn í Reykjavík bátinn og menn á Akranesi og var hann þá nefndur Sæborg MB 4.

Sæborg fór frá Seyðisfirði áleiðis til Skála á Langanesi 14. nóvember 1942, en það mun hafa verið um 10 tíma ferð og hefði báturinn því átt að ná til Skála að kvöldi sama dags. Um borð var 6 manna áhöfn og tveir farþegar. Ekki er vitað hversu fljótt leit að bátnum hófst, en leitað var á stóru svæði bæði af skipum og flugvélum. 4. desember 1942 kom frétt í blaðinu Íslending um að rekið hafi úr Sæborgu bjarghringur og stykki úr bátnum, og hafi þetta komið á land í Sköruvík (Skoruvík) á Langanesi. Blaðið bætir því við að kunnugir telji að brakið bendi frekast til þess að skipið hafi farist á dufli. Sköruvík er norðanmegin á Langanesi og bendir það til þess að báturinn hafi verið kominn fyrir Langanesfont þegar hann fórst.

Ýmsar kenningar hafa verið upp um ástæður þess að Sæborg fórst. Sumir nefna veður eða brotsjó, aðrir segja tundurdufl, en mikið hafði verið um tundurduflarek á þessum slóðum, og enn aðrir nefna annan farþegann sem var um borð. Þessi farþegi var Hallgrímur Baldi Hallgrímsson.

Í Múlaþing: byggðasögurit Austurlands 01.01.2012, s. 76 er það nefnt að hafa verði í huga þann möguleika að Bretar hafi skotið bátinn niður, rétt eins og þeir skutu niður togarann Reykjaborg sem þeir fyrir mistök töldu vera þýskan. Í tilfelli Sæborgarinnar hafi þó ekki verið um mistök að ræða, heldur hafi Bretarnir vilja losna við Hallgrím, sem þeir töldu vera hættulegan vegna skoðana hans. Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa meira um þennan rökstuðning bendi ég á að lesa hér.

Með skipinu fórust þessir menn:

Jóhann Friðriksson, skipstjóri frá Gamla-Hrauni við Eyrarbakka, 29 ára, kvæntur og átti 1 barn um tveggja ára að aldri.

Hinrik Valdemar Schiöth, stýrimaður frá Hrísey, 22 ára, ókvæntur en átti fyrir móður að sjá.

Eðvald Valdórsson, fyrsti vélstjóri frá Vestmannaeyjum, 30 ára, kvæntur og átti 1 barn. Eðvald er nefndur á Minnisvarða horfinna sem er í Keflavíkurkirkjugarði við Aðalgötu.

Aðalsteinn Jónsson, Hrísey, annar vélstjóri, 44 ára, kvæntur og átti 2 börn og 1 fósturbarn.

Óli Guðbjartur Lárus Friðriksson, matsveinn, Aðalvík, ókvæntur en átti foreldra á lífi.

Páll Pálmason, háseti frá Akureyri, ókvæntur en átti foreldra á lífi.

Hallgrímur Baldi Hallgrímsson, farþegi, kvæntur og átti eitt barn ársgamalt.

Bandarískur hermaður, nafn hans er mér ekki kunnugt – ef einhver veit hver hann var má sá hinn sami mjög gjarnan senda mér línu svo ég geti bætt nafni hans við hér.

Heimildir:
Sjómannablaðið Víkingur 01.01.1943, s. 5
Ægir 01.11.1942, s. 263
Múlaþing: byggðasögurit Austurlands 01.01.2012, s. 70-79
Íslendingur 04.12.1942, s. 1
Víðir 19.12.1942, s. 2

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *