Selárdalskirkjugarður

Staðsetning: Ketildalahr., V-Barðastrandarsýslu.
Fjöldi einstaklinga: 
149

Fjöldi legsteina: 
58

Ljósmyndari: Soffía Guðrún Gunnarsdóttir (2021).
Fjöldi kvenna: 
76

Fjöldi karla: 
73

Meðalaldur:
 
71
ár
Skoða garðinn í gagnagrunninum

Þegar horft er inn Selárdal blasir kirkjan við, þar sem hún stendur undir brattri fjallshlíð vestan megin í dalnum. Þegar komið er að kirkjustaðnum er sveigt eftir vegslóða til austurs inn á grasigróið bílastæði við norðurhlið garðsins. Vegurinn heldur síðan áfram meðfram austurhlíð kirkjugarðarins og fram dalinn. Garðurinn er umlukinn grasi grónu landi og hallar honum til austurs og suðurs frá kirkju. Austan við kirkjuna er brattur stallur sem var kirkjugarðsveggur fram til 1930. Veggurinn hefur verið einhlaðinn og svipaðir veggir hafa að öllum líkindum verið bæði á suður- og norðurhlið, mótar ennþá fyrir þeim. Kirkjan stendur vestan megin í garðinum og er hann um 38 metrar á lengd frá vestri til austurs og rúmir 35 metrar á breitt frá norðri til suðurs.

Garðurinn hefur að mesti leyti verið sléttaður nema austast, þar sem er yngsti hluti garðsins. Ekki hefur verið talið óhætt að grafa í garðinum við vesturhorn kirkjunnar, en þar er svokallaður Kolbeinsreitur.

Gömul og merk minningarmörk eru í garðinum. Má þar sérstaklega geta minningarmarka úr pottsteypu sem setja mikinn svip á garðinn, níu pottjárnskrossa og eina leiðisumgjörð við suðvesturhorn kirkjunnar. Í kirkjugarðinum í Selárdal er ekki að finna neinn trjágróður, en á einstaka leiði í nýjasta hlutanum má sjá runna og fjölærar plöntur.

Sunnan við kirkjustéttina er íslenskur steinn á leiði séra Gísla Einarssonar sem var prestur í Selárdal 1785-1829. Steinninn er með miklu grafletri en ekki rétt vel höggnu og verður helst lesið þannig:

HUM FEL HEL FAG
UR LIOS URT LIF
LEIDDR ER HER
GISLI EINARI
BORINN FÆDDR 1759
FRAMLIÐIN 1834
ORDA ÞION DROTT
INS = AR = 76
PRIDI PRESTA
SÆMD SAMLIFIS
FRAMI LÆRDOMS
FRÆGÐ MANNELSKU
JATAR ÞVI ÓÞÖGULL
ÞJÓÐAR RÓMUR
ÁSTVINIR ÆTT-
MENN AMEN SEGIA
A LEIDI LJÚFMÆR
INGS LEGGJA ST
EIN ÞENNAN
ÁR 1847

Hér liggur Gísli
Einari borinn,
dáinn 31. ágúst 1834
fæddur 2. júlí 1759.
Prýði presta,
sæmd samlífis,
frami lærdóms,
frægð mannelsku.
Játar það óþögull
þjóðarrómur.
Ástvinir, ættmenni
amen segja.
Á leiði ljúfmærings
leggjum stein þenna.
Húm felur ljós.
Hel fagurt mannlíf.

Mynd fengin úr Kirkjur Íslands 26. bindi, s. 368.
Leiði Guðbrands Jónssonar

Um leiði Guðbrands Jónssonar sýslumanns í Feigsdag (Feitsdal, d. 1857) suðvestan við kirkjuna er járnkross og vandað grindverk úr steypujárni umhverfis. Guðbrandur lagði stund á lögfræði og var í Kaupmannahöfn 12-13, en lauk aldrei embættisprófi. Kom til Íslands 1812 og var 26. júlí s.á. settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Fékk lausn frá sýslustörfum 10. júní 1847 og varð jafnframt kammerráð að nafnbót.
Guðbrandur var mikill að vexti og rammur að afli. Hann bjó í Teitsdal (Feigsdal) frá 1817 til dauðadags.

Fyrri kona Guðbrands var Kristín “eldri” Gísladóttir prests í Seláral, Einarssonar. Seinni kona Guðbrands var Kristín “yngri” Gísladóttir, alsystir fyrri konu hans.

Samúel Jónssson var bóndi í Brautarholti í Selárdal og einn frægasti alþýðulistamaður sem upp hefur komið á Íslandi í seinni tíð.

Samúel málaði mikið sem ungur maður, en ferill stærri verka hans hófst þegar hann reisti sér kirkju með laukturni á landareign sinni. Það gerði hann þegar sóknarnefndin vildi ekki hafa altaristöfluna sem hann hafði málað í Selárdalskirkju, en kirkjan átti gamla altaristöflu og hún fékk að vera.

Samúel gerði einnig frægt líkan af Péturskirkjunni sem og styttu af Leifi heppna og steypti upp eftirmynd af frægum gosbrunni sem er í Ljónagarðinum (Patio de los Leones) í Alhambra á Spáni.

Samúel eignaðist 3 börn með konu sinni, Salóme Samúelsdóttur. Þau létust öll á unga aldri.

Samúel Jónssson
Gísli Októvíus Gíslason

Í Selárdalskirkjugarði hvílir Gísli Októvíus Gíslason, betur þekktur sem ,,Gísli á Uppsölum”. Gísli fæddist á Uppsölum í Selárdal og ólst þar upp ásamt foreldrum sínum og þremur bræðrum. Faðir hans lést 1916.

Gísli, sem var einsetumaður varð lands­kunn­ur á ofan­verðri síðustu öld þegar grein­ar birt­ust um hann í blöðum og þætt­ir í sjón­varpi.

Á leiði Einars Gíslasonar gullsmiðs í Hringsdal er vandaður steinn, sem á stendur: “Sá sem lifir í kærleika, lifir í guði, guð er kærleikur”.

Einar (1842-1906) var bóndi í Hringsdal. Hann var hinn besti smiður á bæði tré og járn en lærði auk þess, gull- og silfursmíðið í Reykjavík árið 1865. Hann var frumkvöðull smokkfiskveiða og kúfsisköflunar á Íslandi. Einar giftist Maríu Magnúsdóttur frá Hóli í Dölum, þau voru systkinabörn. Þau eignuðust tvo sonu, Gísla og Ragnar Magnús.

Legsteinn Einars Gíslasonar

Í Selárdalskirkjugarði er að finna svokallaðan Kolbeinsreit. Um hann segir svo í Þjóðsögum Jóns Árnasonar:

Þá átti Kári bú að Selárdal við Arnarfjörð er hér var komið sögunni; hafði hann þá tekið prestsvígslu, en trúin var ung í þann tíma og þótti mönnum sem hann væri ærið forn í skapi. Hann var afarmenni mikið og eigi dæll við að eiga og þótti hvervetna illt að etja við hann. Var hann kallaður Árum-Kári.
Þá bjó sá maður er Kolbeinn hét fyrir norðan Arnarfjörð gagnvart Selárdal að Lokinhömrum; er þar nærhæfis hálf önnur vika sævar (sjóar) á milli. Féll Kolbeinn í missætti við Kára og eltu þeir lengi grátt silfur, og þar kom að Kolbeinn safnaði liði, fór á skip og ætlaði að veita Kára heimsókn og drepa hann. En svo bar við að í þeirri ferð týndist skip Kolbeins á skeri því er síðan er kallað Kolbeinsboði. Þar fórust menn allir er með Kolbeini voru, og menn ætluðu Kolbein einnig hafa drukknað þar með skipverjum sínum. En er Árum-Kári kom ofan til sjóar mætti hann Kolbeini í fjöru og tókust þeir þar á; það varð Kára til fangaráðs að hann fór á bak Kolbeini og reif báðum höndum í skegg hans og reið honum á land upp; er þar sléttlendi mikið; heitir þar nú síðan Kolbeinsskeiði er hann reið honum hringskeið kringum sléttlendið og er það túnsummálið á bæ þeim er þar var síðan byggður og dregur nafn af skeiðinu og heitir Kolbeinsskeiði.
Eftir þessa reið var Kolbeinn allur og fluttur dauður heim að Selárdal með skipverjum þeim er upp ráku og voru þessir allir grafnir í einum reit norðan fram í kirkjugarði í Selárdal þar sem nú heitir Kolbeinsreitur, og var það lengi að eigi voru lík grafin í reit þessum. Þó er þess getið að nú á seinni tímum hafi þar grafizt upp eitt sinn ærna þykk og stórvaxin mannabein.

Selárdalskirkjugarður var ljósmyndaður af Soffíu Guðrúnu Gunnarsdóttuog fær hún kærar þakkir fyrir!

Heimildir:
Örnefni í Selárdalstúni. Hannibal Valdimarsson skráði.  
Kirkjur Íslands 26. bindi, s. 365-369

Leave a Comment

Your email address will not be published.