Skuld VE 263

Skuld VE 263 var 15 tonna bátur byggður 1921 í Danmörku og endurbyggður 1943 með Scania Vabis 152 h. vél árið 1972. Báturinn var gerður út frá Vestmannaeyjum.

[supsystic-gallery id=21]

Skuld VE 263 var á lúðuveiðum með haukalóð á Selvogsbanka fimmtudaginn 10. júlí 1980. Þá um morguninn fór að hvessa af suð-vestri og hættu skipvejar veiðum og héldu sjó. Var báturinn þá staddur 14-15 sjómílur suð-vestur af Geitahlíð. Um borð voru fjórir skipverjar. Tveir þeirra, Ólafur Guðjónsson skipstjóri og Þorvaldur Hreiðarsson voru í stýrishúsi, en hinir tveir Gísli Leifur Skúlason og Sigurvin Þorsteinsson, voru í kojum fram í lúkar.

Klukkan 13:15 reið skyndilega brotsjór yfir bátinn. Lagðist hann strax á hliðina, síðan hvolfdi honum og loks sökk báturinn. Gerðist þetta allt á nokkrum sekúndum. Þeim Ólafi og Þorvaldi tókst með naumindum að komast í gúmmíbjörgunarbát en til Gísla Leifs og Sigurvins sáu þeir aldrei.

Svo mikill var flýtirinn að Ólafur og Þorvaldur náðu hvorki að senda út neyðarkall né að taka með sér neyðartalstöð. Rak gúmmíbátinn hratt vestur með Reykjanesi og það var ekki fyrr en klukkan rúmlega tólf að vart var við bátinn þegar þeir félagar sendu út neyðarflugeld en þá voru þeir staddir útaf Grindavík.

Boðum var strax komið til Slysavarnarfélagsins sem gerði ráðstafanir til björgunar. Skipverjar á vöruflutningaskipinu Bifrösk sáu einnig neyðarflugeldinn og um kl. 00:30 var búið að bjarga þeim Ólafi og Þorvaldi um borð í skipið.

Þeir sem fórust voru:

Gísli Leifur Skúlason, 35 ára, ókvæntur.

Sigurvin Þorsteinsson, 30 ára, ókvæntur.

Eftir því sem ég kemst næst fundust þeir Gísli Leifur og Sigurvin aldrei, en Gísli Leifur er nefndur á legstein móður sinnar og stjúpföður sem er í Vestmannaeyjakirkjugarði. Ef þú ert með frekari upplýsingar, leiðréttingar eða myndir máttu mjög gjarnan senda mér tölvupóst.

Heimildir:
MBL 12.07.1980, s. 40
Ægir 01.10.1980, s. 559

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *