Þormóður BA 291

Vélskipið Þormóður BA 291 (áður Aldan EA 625) var upphaflega byggt í Lowestoft í England árið 1919, var úr eik og pitchpine og var að stærð 101 smálest. 1941 var skipið að miklu leyti byggð upp og þá sett í það 240 hestafla Lister díselvél. Það var prýðilega útbúið að nýjustu öryggistækjum; talstöð, dýptarmælitækjum o.fl. Þormóður var ekki farþegaskip heldur línuveiðari og síldarveiðiskip. Eigandi skipsins var Fiskiveiðihlutafélagið Njáll á Bíldudal, en skipið var leiguskip Skipaútgerðar ríkisins og var í flutningum fyrir þá útgerð er slysið varð.

Þormóður BA 291
Aldan EA 625 að landa síld á Siglufirði. Ljósmyndari óþekktur, mynd úr Íslensk skip

Var það að koma norðan frá Blönduósi og Skagaströnd með kjötfarm, og var á leið til Reykjavíkur. Eftir viðdvölina á Bíldudal hélt skipið til Patreksfjarðar og fór þaðan á þriðjudeginum 16. febrúar. Á miðvikudagskvöldinu um sjöleytið barst skipaútgerðinni svar frá skipinu upp á fyrirspurn er því var send, um það hvenær mætti vænta þess til Reykjavíkur. Skeytið var svohljóðandi:

,,Slóum [förum með hægri ferð] Faxabugt, get ekki sagt um það nánar.”

Um svipað leyti sendu tveir farþegar skeyti til ættingja og vina um það að öllum liði vel. Eftir það heyrðist ekkert til skipsins fyrr en 22:35 sama kvöldið, en þá barst Slysavarnarfélaginu svohljóðandi skeyti frá skipinu:

,,Erum djúpt af Stafnesi stop Mikill leki kominn að skipinu stop Eina vonin er að hjálpin komi fljótt”.

Slysavarnarfélagið brást fljótt við og gerði allt er í þess valdi stór til að útvega hina umbeðnu hjálp. En fárviðrið var svo mikið að ógerningur reyndist að veita neina hjálp, en leit hafin strax og fært þótti á fimmtudagsmorgun með skipun og flugvélum og þó við mjög örðugar aðstæður. Á fimmtudagsmorguninn fundu togararnir Arinbjörn hersir og Gyllir brak úr skipinu um 7 mílur udan Garðskaga, og eitt konulík, lík Jakobínu Pálsdóttur frá Bíldudal. Einnig rak þann dag brak úr skipinu á Stafnesfjörur. Skömmu seinna fann norskt skip lík Bjarna Péturssonar. Var það á floti í björgunarbelti. Á sunnudagsmorgninum fundust tvö lík rekin við Akranes, þeirra Lárusar Ágústssonar vélstjóra og Salóme Kristjánsdóttur. Nokkru síðar fannst lík Guðmundar Péturssonar. Nákvæm skoðun og athugun á braki því er fundist hefur úr skipinu, benti til þess að skipið hafi tekið niðri á grynningum.

thormodur
Teikning af vélskipinu Þormóði sem fórst við Garðskaga fyrir 80 árum. – Heimild: Víkurfréttir

Síðar kom í ljós að Þormóður hafði líklega rekist á svonefnda Flös við Garðsskaga og brotað þar í spón, nóttina milli 17. og 18. febrúar 1943. Með honum fórst 7 manna áhöfn og 24 farþegar. Sérstaklega þungur harmur var kveðinn að fólki á Bíldudal, því með Þormóði fórst nærri 13. hver maður í þorpinu.

Eftirfarandi voru í áhöfn Þormóðs:


Gísli Guðmundsson, skipstjóri, 34 ára, búsettur á Bíldudal.

Gísli var fæddur þann 13. júlí 1908 í Ytri-Eyrarhúsum á Tálknafirði. Hann var kvæntur og átti tvö börn. Var hann tengdasonur Ágústs Sigurðssonar og Jakobínu Jóhannu Sigríðar Pálsdóttur er bæði fórust með Þormóði (sjá hér fyrir neðan).

Gísli hvílir í Bíldudalskirkjugarði.


Bárður Árni Bjarnason, stýrimaður, 39 ára, búsettur á Ísafirði.

Bárður Árni var fæddur þann 10. mars 1903 í Ytri-Búðum á Bolungarvík. Hann var kvæntur og átti tvö ung börn.

Bárður Árni hvílir í votri gröf.


Lárus Ágústsson, 1. vélstjóri, 34 ára, búsettur á Kárastíg 13 í Reykjavík.

Lárus var fæddur þann 1. júní 1908 í Keflavík á Hellissandi, Snæf. Hann var kvæntur og átti tvö börn.

Lárus hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Jóhann Kristinn Guðmundsson, 2. vélstjóri, 38 ára, búsettur á Laugavegi 159A í Reykjavík.

Jóhann Kristinn var fæddur þann 3. nóvember 1904 á Kaldalæk í Fáskrúðsfjarðarhr., S-Múl. Hann lét eftir sig unnustu sem áður hafði misst þrjá bræður sína í sjóinn.

Jóhann Kristinn hvílir í votri gröf.


Gunnlaugur Jóhannsson, matsveinn, 28 ára, búsettur á Bíldudal.

Gunnlaugur fæddist þann 21. júlí 1914 í Brimnesi, Ketildalahr., V-Barð. Hann var kvæntur Fjólu Ásgeirsdóttur og sonur Salóme Kristjánsdóttur sem báðar fórust með Þormóði (sjá hér fyrir neðan). Áttu þau hjónin einn son.

Gunnlaugur hvílir í votri gröf.


Björn Pétursson, háseti, 22 ára, búsettur á Bíldudal.

Björn fæddist þann 2. júní 1920 á Bíldudal. Lét eftir sig unnustu. Bróðir hans, Bjarni, var farþegi á Þormóði.

Björn hvílir í votri gröf.


Eftirfarandi voru farþegar á Þormóði:


Ólafur Geir Ögmundsson, háseti, 23 ára, til heimilis á Flateyri.

Ólafur Geir fæddist þann 6. nóvember 1919 í Flatey á Breiðafirði.

Ólafur Geir hvílir í votri gröf.


Séra Jón Jakobsson, 39 ára, prestur í Bíldudal.

Jón var fæddur þann 10. mars 1903 í Galtafelli í Hrunamannahr., Árn. Hann var kvæntur og átti þrjú börn. Margrét Björnsdóttir kona hans, hafði ætlað með Þormóði til Reykjavíkur. Á síðustu stundu breyttist það þar sem gestkomu var von og hún sagðist hafa viljað sjá til þess að heimilið væri í lagi. Var þó svo langt komið að hún var búin að láta niður í töskurnar, þegar hún ákvað að fara hvergi.

Jón hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Séra Þorsteinn Kristjánsson, 51 árs, prestur að Sauðlauksdal.

Þorsteinn var fæddur þann 31. ágúst 1891 í Þverá í Eyjarhr., Snæf. Hann var kvæntur og átti 5 börn,

Þorsteinn hvílir í votri gröf.


Ágúst Sigurðsson, 56 ára, verslunarstjóri á Bíldudal.

Ágúst var fæddur þann 13. ágúst 1886 að Desjarmýri í Borgarfjarðarhr., N-Múl. Hann fórst ásamt konu sinni Jakobínu Jóhönnu Sigríði Pálsdóttur. Þau létu eftir sig 7 börn og tvö uppeldisbörn.

Ágúst hvílir í votri gröf, en legsteinn hans og konu hans er i Bíldudalskirkjugarði.


Jakobína Jóhanna Sigríður Pálsdóttir, 50 ára, búsett á Bíldudal.

Jakobína var fædd þann 15. október 1892 á Prestsbakka í Bæjarhr., Strand. Hún var eiginkona Ágústs Sigurðssonar (sjá hér fyrir ofan) og létu þau eftir sig 7 börn og tvö uppeldisbörn.

Jakobína hvílir í Bíldudalskirkjugarði.


Þorvaldur Friðfinnsson, 34 ára, forstjóri rækjuverksmiðjunnar á Bíldudal.

Þorvaldur var fæddur þann 25. desember 1908 í Reykjavík. Hann lét eftir sig eiginkonu og tvö börn.

Þorvaldur hvílir í votri gröf.


Þorkell Jónsson, 32 ára, verkstjóri hraðfrystihússins á Bíldudal.

Þorkell var fæddur þann 15. mars 1910 í Otradal í Suðurfjarðahr., V-Barð. Hann var kvæntur Sigríði Eyjólfsdóttur (sjá hér fyrir neðan) og áttu þau tvö börn saman, en annað þeirra, Bjarni (sjá hér fyrir neðan) fórst einnig með Þormóði.

Þorkell hvílir í votri gröf.


Sigríður Eyjólfsdóttir, 34 ára, búsett á Bíldudal.

Sigríður var fædd þann 10. febrúar 1909 í Hákoti í Bessastaðahr., Gull. Hún var gift Þorkatli Jónssyni (sjá hér fyrir ofan) og áttu þau tvö börn saman, en annað þeirra, Bjarni (sjá hér fyrir neðan) fórst einnig með Þormóði.

Sigríður hvílir í Hafnarfjarðarkirkjugarði.


Bjarni Þorkelsson, 8 ára,

Bjarni var fæddur þann 20. ágúst 1934 Reykjavík. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Eyjólfsdóttur og Þorkels Jónssonar.

Hann hvílir í votri gröf.


Kristján Ásmundur Guðmundsson, 33 ára, sjómaður af togaranum Baldri, búsettur á Bíldudal.

Kristján var fæddur þann 14. nóvember 1909 á Bíldudal. Hann var kvæntur Indíönu Maríu Jónsdóttur (sjá hér fyrir neðan) sem einnig fórst með Þormóði.

Kristján hvílir í votri gröf.


Indíana María Jónsdóttir, 31 árs, búsett á Bíldudal.

Indíana var fædd þann 8. desember 1911 á Bíldudal. Hún var gift Kristjáni Ásmundi Guðmundssyni (sjá hér fyrir ofan) sem einnig fórst með Þormóði.

Indíana hvílir í votri gröf.


Þórður Þorsteinsson, 39 ára, skipstjóri á togaranum Baldri.

Þórður var fæddur þann 26. október 1903 Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Hann lét eftir sig konu og tvö börn.

Þórður hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Eiríkur Karl Eiríksson, 36 ára, sjómaður frá Bíldudal.

Eiríkur var fæddur þann 28. janúar 1907 í Firði í Múlahr., A-Barð. Hann var ógiftur en fyrirvinna foreldra sinna.

Eiríkur hvílir í votri gröf.


Bjarni Pétursson, 34 ára, sjómaður frá Bíldudal.

Bjarni var fæddur þann 27. janúar 1909 á Bíldudal. Hann var kvæntur og lét eftir sig tvö börn. Han var bróðir Björns háseta (sjá hér fyrir ofan).

Bjarni hvílir í votri gröf.


Loftur Gunnar Jónsson, 31 árs, kaupfélagsstjóri frá Bíldudal.

Loftur Gunnar var fæddur þann 28. júní 1911 á Framnesi í Dalvík. Hann var kvæntur og átti eitt barn.

Loftur Gunnar hvílir í votri gröf.


Áslaug Jensdóttir, 17 ára, frá Bíldudal.

Áslaug var fædd þann 16. febrúar 1926 á Bíldudal. Hún fór um borð á Þormóði á 17 ára afmælisdeginum sínum. Hún var ógift.

Áslaug hvílir í votri gröf.


Gísli Magnús Kristjánsson, 28 ára, bifreiðastjóri frá Bíldudal.

Gísli Magnús var fæddur þann 2. ágúst 1914 á Gileyri í Tálknafjarðarhr., V-Barð. Hann var ókvæntur.

Gísli Magnús hvílir í votri gröf.


Jón Þórður Jens Jónsson, 27 ára, sjómaður frá Bíldudal.

Jón Þórður Jens var fæddur þann 22. júní 1915 í Nausti í Tálknafirði. Hann var kvæntur og átti tvö börn.

Jón Þórður Jens hvílir í votri gröf.


Óskar Leví Jónsson, 23 ára, frá Bíldudal.

Óskar Leví var fæddur þann 15. nóvember 1919 á Tungu Í Tálknafirði. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Óskar Leví hvílir í Bíldudalskirkjugarði.


Málfríður Guðmundína Jónsdóttir, 20 ára, frá Bíldudal.

Málfríður Guðmundína var fædd þann 4. október 1922 á Bíldudal. Hún var ógift.

Málfríður Guðmundína hvílir í votri gröf.


Guðbjörg Pálfríður Elíasdóttir, 26 ára, úr Dalahreppi.

Guðbjörg Pálfríður var fædd þann 14. ágúst 1916 á Krosseyri í Suðurfjarðahr., V-Barð. Hún var ógift en lét eftir sig eitt barn.

Guðbjörg Pálfríður hvílir í votri gröf.


Guðmundur Pétursson, 26 ára, frá Súluvöllum í Þverárhr., V-Hún.

Guðmundur fæddist þann 13. maí 1916 á Súluvöllum í Þverárhr., V-Hún. Hann kom með skipinu frá Hvammstanga og var ókvæntur og barnlaus.

Guðmundur hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Fjóla Ásgeirsdóttir, 17 ára, búsett á Bíldudal.

Fjóla var fædd þann 18. júní 1925 á Bíldudal. Hún var gift Gunnlaugi Jóhannssyni matsveini (sjá hér fyrir ofan) og áttu þau einn son.

Fjóla hvílir í votri gröf.


Salóme Kristjánsdóttir, 56 ára, búsett á Bíldudal.

Salóme var fædd þann 26. júní 1886 í Hálshúsum í Reykjarfjarðarhr., N-Ís. Hún var móðir Gunnlaugs Jóhannssonar matsveins (sjá hér fyrir ofan).

Salóme hvílir í Bíldudalskirkjugarði.


Benedikta Ragnhildur Jensdóttir, 19 ára, til heimilis í Selárdal í Ketildalahr., V-Barð.

Benedikta Ragnhildur var fædd þann 16. janúar 1924 Selárdal í Ketildalahr., V-Barð. Hún var ógift.

Benedikta Ragnhildur hvílir í Selárdalskirkjugarði.


Heimildir:
Fálkinn 26.02.1943, s. 3
MBL 27.03.1975, s. 63.
Siglfirðingur 25.02.1943, s. 1, 4
Sjómannablaðið Víkingur 01.03.1943, s. 66-67
Vísir 20.02.1943, s. 2
Þjóðviljinn 21.02.1943, s. 4