Þuríður formaður VE 233

Vélbáturinn Þuríður formaður VE 233 var smíðaður 1920 og var 16 rúmlestir að stærð. Eigandi hans var Guðjón Runólfsson útgerðarmaður í Eyjum.

Þuríður formaður VE 233 – Mynd fengin úr Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1992, Sjóslysið 1. mars 1942

Aðfaranótt sunnudagsins 1. mars 1942 var sæmilega gott veður í Eyjum og fóru nær þrjátíu línubátar í fiskiróður. Um dagmálaleytið var kominn stinningsvindur og kafaldsfjúk sem skyndilega breyttist í stórviðri og allmikið snjóveður. Fram eftir deginum var háaustanvindur og harðviðri, en gekk nokkuð á suðlægari er leið á daginn.

Þegar leið að rökkri fóru bátarnir að koma, einn og einn og héldu þeir því áfram fram undir miðnætti. Var veðrið enn jafn illt að öðru leyti en því, að byllaust var. Vantaði þá enn fimm báta sem enginn vissi um, og voru menn mjög farnir að óttast um suma þeirra. Tveir bátanna komu fram næsta dag en þrír voru enn ókomnir, þar á meðal mb. Þuríður Formaður VE 233. Um kvöldið sama dag, mánudag, kom sú frétt frá Grindavík að mb. Þuríður formaður hefði lent eða rekið á land í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, og öll skipshöfnin farist, 5 menn.

Þeir sem fórust voru:

Guðbjörn Jón Sigbjörnsson, skipstjóri, 34 ára. Kvæntur og átti eitt barn.

Gunnlaugur Þór Vilhjálmur Helgason, vélstjóri, 28 ára. Kvæntur og átti einn barn.

Halldór Magnús Engiberg Halldórsson, háseti, 36 ára. Var fyrirvinna aldraðrar móður.

Sigvaldi Benjamínsson, háseti, 63 ára. Kvæntur og átti tvær uppkomnar dætur.

Þorgeir Eiríksson, háseti, 55 ára. Ekkjumaður, lét eftir sig tvö uppkomin börn og aldraða móður.

Skv. kirkjubók Vestmannaeyja frá þessum tíma var Sigvaldi sá eini sem fannst og hvílir hann í Vestmannaeyjakirkjugarði. Í sama garði má finna minningarmerki fyrir Þorgeir Eiríksson.

Heimildir:
Víðir 18-03-1942, s. 1
Tíminn 05-03-1942, s. 37

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *