Athugasemdir |
- Ágústa Margrét átti viðburðaríka ævi, hún ólst upp í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskóla, sem unglingur vann hún við barnapössun hjá Margréti Guðmundsdóttur og Páli Guðmundssyni á Dalbæ í Hrunamannahreppi. Eftir að hún fullorðnaðist vann hún í versluninni Gefjun í Reykjavík. Hún eignaðist tvö börn, rétt um og eftir seinna stríð. Dóttir hennar Klara var alin upp hjá kjörforeldrum þeim Klöru og Magnúsi. Grétar Pál, elsta son sinn, fór hún með í Dalbæ og ólst hann að mestu leyti upp hjá þeim Margréti og Páli. Eftir að Ágústa giftist Ólafi hófu þau búskap í Hveragerði, áttu þau saman Halldór og Reyni, en þau slitu síðar samvistum árið 1957. Ágústa vann um tíma á garðyrkjustöðvum og á Heilsuhælinu (NLFÍ) í Hveragerði. Í kringum 1972 flutti hún til Margrétar og Páls í Dalbæ. Þar sem hún hóf störf við sláturhúsið á Miðfelli. Eftir að Margrét og Páll brugðu búi dvaldi hún um tíma ýmist hjá Brynjólfi og Kristjönu, Dalbæ 2, eða Jóhanni og Hróðnýju á Dalbæ. Dalbæjarfólkið var henni einkar hjartfólgið, það reyndist henni ávallt vel í gegnum tíðina. Oft dvaldi hún hjá börnum sínum og aðstoðaði við barnauppeldið á barnabörnunum til lengri og skemmri tíma. Á þessu græddu barnabörnin sem dáðu hana og elskuðu. Það kom að því að hún flutti aftur í húsið sitt í Laufskógunum í Hveragerði, þar bjó hún ásamt Halldóri syni sínum í mörg ár. Þegar kom á efri ár flutti hún á Dvalarheimilið Ás í Hveragerði þar sem hún bjó í átta ár, síðastliðin fjögur ár bjó hún á hjúkrunarheimilinu Grund við gott atlæti, hún lést á Landspítalanum í Fossvogi eftir stutt veikindi. [2]
|