Athugasemdir |
- Carl Billich fæddist í Vínarborg í Austurríki 23. júlí 1911 og ólst þar upp. Til Íslands kom hann árið 1933 með hljómsveit frá Vín sem hafði verið ráðin af Rosenberg til að spila á Hótel Íslandi, sem stóð á Hallærisplaninu svonefnda. Árið 1939 kvæntist hann Þuríði Jónsdóttur Billich.
Árið 1940 var Carl handtekinn, eins og fleiri útlendingar hér á landi, og fluttur í enskar fangabúðir. Þar dvaldist hann til stríðsloka, en var sendur til Þýskalands eftir fangavistina, ásamt mörgum öðrum sem líkt var ástatt með. Þar var hann án vegabréfs og vegalaus í öllum hörmungum og þrengingum eftirstríðsáranna. Það mun fyrst og fremst vera Þuríði konu hans að þakka að Carli tókst að komast aftur til Íslands árið 1947. Hún leitaði að manni sínum, innan um þá mörgu týndu og vegalausu og tókst að koma honum heim til Íslands og hér öðlaðist hann ríkisborgararétt og nýtt föðurland.
Carl réðst til Þjóðleikhússins sem hljómsveitarstjóri í Kardimommubæinn í janúar 1960. 1. september 1964 var hann síðan fastráðinn sem tónlistarstjóri Þjóðleikhússins, jafnframt því sem hann stjórnaði Þjóðleikhúskórnum og þjálfaði hann, og gegndi hann því starfi óslitið til ársins 1981, er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Carl stjórnaði tónlist í u. þ. b. 40 leikverkum og söngleikjum hjá Þjóðleikhúsinu, þann tíma sem hann starfaði þar, má þar nefna nær öll barnaleikrit sem leikhúsið flutti á þessum tíma, en hæst bera af þeim leikrit Egners, Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi. Þá má nefna íslensku verkin Delerium Búbónis, Ég vil auðga mitt land, Silfurtunglið o. fl., einnig Púntila og Matta og Túskildingsóperuna.
Carl var sæmdur Fálkaorðunni fyrir störf sín í þágu tónlistar á Íslandi, og einnig hlaut hann sérstakar viðurkenningar frá finnskum og austurrískum stjórvöldum.
Carl lést 23. október 1989. Hann hvílir í Fossvogskirkjugarði við hlið konu sinnar. [2]
|