Athugasemdir |
- Guðjón Samúelsson fæddist á Hunkubökkum á Síðu 16. apríl 1887. Hann fluttist þriggja ára gamall með foreldrum sínum á Eyrarbakka og aldamótaárið til Reykjavíkur. Faðir hans, Samúel Jónsson, var góður trésmiður og sonurinn fékk því snemma áhuga á húsagerð.
Það varð úr að Guðjón nam teikningu hjá Stefáni Eiríkssyni, hinum oddhaga, í Reykjavík og tungumál lærði hann hjá Þorsteini Erlingssyni þjóðskáldi. Þetta nám kom Guðjóni vel þegar hann fór til Kaupmannahafnar árið 1908 til þess að sækja þar frekara nám í húsagerðarlistinni. Árið 1915 snéri Guðjón heim til Íslands og fyrsta húsið sem hann var fenginn til að teikna var hið fræga hús Nathans & Olsen á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis.
Um þetta leyti lést þáverandi byggingafræðingur landsstjórnarinnar, Rögnvaldur Ólafsson, og fór Jón Magnússon, forsætisráðherra þess á leit við Guðjón að hann tæki að sér starf húsameistara ríkisins. Guðjóni leist vel á þetta boð, fór á ný til Kaupmannahafnar og lauk þar námi og tók síðan við þessu nýja starfi 20. apríl 1920.
Á þeim 30 árum sem Guðjón starfaði sem húsameistari ríkisins teiknaði hann og aðstoðarmenn hans ótrúlegan fjölda húsa. Af húsum í Reykjavík sem húsameistari teiknaði má nefna: Hæstarétt, Hótel Borg, Sundhöll Reykjavíkur, Laugarneskirkju, Kleppsspítala, Háskóla Íslands, Hallgrímskirkju, Þjóðleikhúsið, Landsspítalann, Landsbankann, Landsímahúsið, Landakotskirkju og Arnarhvol.
Á Akureyri má nefna: Akureyrarkirkju, Sundlaug Akureyrar, Húsmæðraskólann, Landsbanka Íslands, Fjórðungssjúkrahúsið, Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar.
Guðjón lést 25. apríl 1950 og hvílir í Hólavallagarði við Suðurgötu. [3]
|