Athugasemdir |
- Theódór Friðriksson fæddist 27. apríl 1876 í Nýjabæ í Flatey á Skjálfanda. Hann elst upp í lágu hreysi, þar sem skortur og neyð eru stöðugt á næstu grösum, so að stundum munar aðeins hársbreidd að foreldrar hans leyti á náðir sveitarinnar. Hann nýtur sáralítillar fræðslu í uppvextinum, fer að vinna fyrir sér löngu áður en kjúkurnar eru harðnaðar, en stælist brátt í slarkinu og verður bæði snarpur í átökum og þolinn í þrautum.
Frá blautu barnsbeini sækir hann sjóinn með föður sínum, ræðst unglingur á hákarlaskip, en flyst síðan frá einni verstöðinni til annarrar; ýmist rær hann frá Húsavík eða Siglufirði, Sauðárkróki eða Bolungarvík, Eyjafirði eða Njarðvíkum, Flatey eða Vestmannaeyjum. Hann gerist jafnvel farmaður og stígur fæti sínum á jörð fjarlægra landa.
En þegar hann er ekki við árina eða flatningaborðið, stundar hann eyrarvinnu eða búskap, þótt hvorugt reynist honum happasælt. Einn veturinn býr hann með konu sinni og börnum í niðurníddu moldargreni í Gönguskörðum. Hungurvofan stendur óaflátlega í dyragættinni, heimskautakuldi í baðstofunni, fönn byrgir gluggakrílið, en manndrápsbyljir æða yfir þennan hálffallna og afskekkta kotbæ, þar sem blásnautt fólkið hefur ekki annað en hrossakjöt að leggja sér til munns.
Seinna vinnur Theódór Friðriksson í kolanámu á Tjörnesi, ræðst í vegavinnu eða kaupavinnu, stundar ræsagröft í Reykjavík og kemst um skeið svo hátt í mannfélagsstiganum að verða pallvörður á Alþingi Íslendinga, þó sú dýrð reynist ekki langæ.
Þrátt fyrir þessi lífskjör byrjaði Theódór nokkuð snemma að setja saman sögur og gaf út nokkur smásagnasöfn og fáeinar skáldsögur. Merkasta verk hans er sjálfsævisaga hans, Í verum, sem kom út á stríðsárunum í tveimur allstórum bindum.
Theódór lést á sjúkrahúsi Hvítabandsins í Reykjavík 8. apríl 1948. Hann hvílir í Fossvogskirkjugarði. [4, 5]
|