Athugasemdir |
- Bjarni Einar Böðvarsson, f. 21. nóvember 1900, d. 21. nóvember 1955, var hljóðfæraleikari, hljómsveitarstjóri og stofnandi og fyrsti formaður FÍH.
Foreldrar Bjarna voru Böðvar Bjarnason, f. 18. apríl 1872, d. 11. mars 1953, prestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 1901-1941 og prófastur í V.-Ís., 1929 og 1938-41, og fyrri k.h. Ragnhildur Teitsdóttir, f. 14. júlí 1877, d. 30. júlí 1962, húsfreyja.
Kona Bjarna var Lára Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 4. október 1903, d. 25. desember 1989, húsmóðir og ein fyrsta dægurlagasöngkona þjóðarinnar. Þau eignuðust þrjú börn: a) Ómar Örn, f. 16. desember 1932, d. 18. ágúst 1946; b) Ragnar, f. 22. september 1934, d. 25. febrúar 2020; og c) Dúnu, f. 11. júní 1936.
Bjarni fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð en fluttist ungur til Reykjavíkur. Fyrstu árin starfaði hann þar sem bifreiðastjóri en tók brátt að leggja stund á hljóðfæraleik á skemmtistöðum. Bjarni var meðal hinna fyrstu sem komu auga á nauðsyn þess að hljóðfæraleikarar stofnuðu sín eigin stéttarsamtök. Gerðist hann forgöngumaður um stofnun Félags íslenzkra hljóðfæraleikara 1932, varð fyrsti formaður þess og gegndi þeirri stöðu lengst af síðan, eða alls um 18 ára skeið.
Bjarni gerðist starfsmaður Ríkisútvarpsins snemma á starfsárum þess. Naut hann mikillar hylli hlustenda, og var „Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar“ góðkunn um land allt, bæði úr útvapinu og af ferðum sínum um landið. Fáir tónlistarþættir útvarpsins munu hafa átt almennari vinsældum að fagna en „Gamlar minningar“, sem Bjarni annaðist nokkur síðustu árin.
Bjarni sat í stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar um árabil. Í tómstundum sínum fékkst hann talsvert við tónsmíðar og liggja eftir hann allmörg dægurlög, auk laga alvarlegs efnis og hafa nokkur þeirra verið gefin út. [4, 5]
|