Valur AK 25

Valur AK 25 var smíðaður í Svíþjóð, 66 brúttórúmlestir með 180 hestafla Skandiavél. Var hann keyptur til landsins þann 3. júlí 1946 af hlutafélaginu Víði, sem Sjálfstæðisfélag Akraness hafði haft forgöngu að stofnun um áramótin 1937-1938.

Valur AK 25
Mynd: Íslensk skip 1. bindi, s. 25

Nóttina 4. og 5. janúar 1952 skall á ofsaveður af austri og suðaustri og olli manntjóni og miklum sköðum á sjó og landi. Að morgni þess 4. janúar réru fjórir bátar frá Akranesi. Laugardagskvöldið 5. janúar voru ókomnir að landi vélbátarnir Valur og Sigrún. Við Sigrúnu hafði verið haft talsamband fram til kl. 10 um morguninn, en ekki úr því, og talsambandið við Val slitnaði að fullu kl. hálf þrjú um daginn. Um fimmleytið sunnudaginn 6. janúar kom Sigrún til Akraness, en þá um kvöldið fann leitarflokkur úr björgunarsveit Borgarness ýmislegt rekið úr v/b Val vestur á Mýrum. Að fullu þótti úr skugga gengið um það á þriðjudeginum, að Valur hefði farist í ofveðrinu og með honum sex menn á aldrinum 18 til 33 ára, sem allir hvíla í votri gröf.

Þessir menn voru:

Sigurður Guðni Jónsson

Sigurður Guðni Jónsson, skipstjóri, 33 ára, var fæddur 21. október 1918 að Lokinhömrum, Auðkúluhr., V-Ís. Hann var til heimilis að Heiðarbraut 41, Akranesi.

Sigurður Guðni hafði lokið prófi frá Stýrimannaskólanum vorið 1951. Tveimur árum áður hafði hann flutt til Akraness. Þar gerðist hann fljótt stýrimaður á vélbátnum Ásmundi. Á síldarvertíðinni 1951 var hann formaður á vélbátnum Fylki. En um áramótin 1951-1952 tók hann við skipstjórn á vélbátnum Val, sem svo fórst með allri áhöfn 5. janúar 1952.

Sigurður Guðni var kvæntur Sigríði Ólöfu Sigurðardóttur og höfðu þau eignast saman fjögur börn, þar af voru þrjú á lífi. Það fimmta, sonur, fæddist í september 1952.

Sveinn Traustason

Sveinn Traustason, 1. vélstjóri, 23 ára, var fæddur 24. júní 1928 á Hólmavík. Hann var til heimilis á Hólmavík.

Sveinn var ókvæntur og barnlaus.

Ingimundur Traustason

Ingimundur Traustason, 2. vélstjóri, 23 ára, var fæddur 24. júní 1928 á Hólmavík. Hann var til heimilis á Hólmavík.

Ingimundur var ókvæntur og barnlaus. Sveinn og Ingimundur voru bræður, og var Ingimundur til heimilis hjá móður sinni á Hólmavík.

Brynjólfur Önfjörð Kolbeinsson

Brynjólfur Önfjörð Kolbeinsson, matsveinn, 23 ára, var fæddur 20. janúar 1929 á Ísafirði. Hann var til heimilis á Ísafirði.

Brynjólfur var kvæntur Ásu Kristínu Hermannsdóttur og áttu þau tvo unga syni.

Guðmundur Hansson

Guðmundur Hansson, háseti, 19 ára, var fæddur 2. maí 1932 á Framnesvegi 13 í Reykjavík. Hann var til heimilis í Reykjavík.

Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.

Sævar Sigurjónsson

Sævar Sigurjónsson, háseti, 19 ára, var fæddur 30. ágúst 1932 á Hellissandi. Hann var til heimilis á Heiðarbraut 11 á Akranesi.

Sævar ætlaði aðeins í þessa einu sjóferð með skipinu. Faðir hans hafði verið stýrimaður á því, en var hættur og sá sem átti við að taka var ekki kominn. Varð því úr að Sævar færi þennan eina róður á Val sökum forfalla. Það varð hans síðasta ferð eins og hans félaga allra.

Sævar var ókvæntur og barnlaus.

Heimildir:
Sjómannablaðið Víkingur 01.02.1952, s. 4.
Sjómannablaðið Víkingur 01.02.1953, s. 34.
Skessuhorn 29.04.2015, s. 35.
Tíminn 09.01.1952, s. 1.
Ægir 01.01.1952, s. 19.