Eyfirðingur EA 480

My special thanks go to all the people of Stronsay who helped me gather information about the shipwreck of Eyfirðingur EA 480. Particular mention goes to John Towrie, Brian Tulloch, Alastair and Anne Cormack, Eoin Stevenson and Ian Cooper (who sent me extensive documentation about Guðmundur’s burial as well as the location of his grave and photos of it). Without their help, I would not have managed to „solve the riddle“ that was Guðmundur’s burial location.

Eyfirðingur EA 480 var smíðaður í Frakklandi árið 1908 fyrir hinn kunna vísindamann Dr. Charcot sem fórst með skipi sínu Pourquoi Pas? við Mýrar 1936, eins og frægt er. Eftir að Dr. Charcot hætti að nota skipið var það selt til Færeyja og síðan til Íslands 1946. Eftir að skipið kom til Íslands var það endurbyggt að mestu og var talið eitt traustasta skipið í flotanum. Eyfirðingur var í eigu Njáls Gunnlaugssonar í Reykjavík þegar það fórst. Það var smíðað úr eik, 33,5 m langt, 174 brúttórúmlestir að stærð, með 120 ha. Skandia vél.

Eyfirðingur EA 480
Eyfirðingur EA 480. Mynd frá Þórhalli Sófussyni Gjöveraa – (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Eyfirðingur lagði af stað áleiðis til Belgíu þann 6. febrúar 1952, með 7 manna áhöfn, og var skipið lestað brotajárni. Það síðasta sem fréttist af ferðum þess áður en slysið varð, var skeyti sem útgerðarmaðurinn fékk 9. febrúar. Var Eyfirðingur þá staddur þvert af Færeyjum á réttri leið. Mánudagsmorguninn 11. febrúar kl. 6:45 strandaði skipið milli Calf of Eday og Lashy Skerry við eynna Eday, norðan til í Orkneyjaklasanum. Þennan morgun var mjög vont veður á þessum slóðum, hríðarél og hvasst, og þungur straumur, en mikill skerjagarður er úti fyrir eyjunum þar sem skipið strandaði.

Íbúar eyjarinnar urðu fljótt varir við strandið og björgunarbátur var settur út til hjálpar strax um morguninn, en þá virðist allt hafa verið um seinan og skipið horfið og brotið á skerjunum. Björgunarbáturinn náði einu líki, sem fannst á vík innan við skerin. Var á því björgunarbelti og auk þess fannst hluti af stýrishjóli sem á var skrifað með blýanti Hgrafar Lárusson, að skeyti segir. Síðar um daginn rak annað lík á land í eynni Sanday, sem er rétt sunnan við Eday, þar sem Eyfirðingur strandaði, og eru ekki nema fáir kílómetrar á milli eyjanna. Þar rak einnig hluta úr stýrishúsi bátsins. Daginn eftir fannst nokkurt brak úr bátnum rekið á land í eynni Eday. Var brakið úr yfirbyggingunni aðallega, en auk þess nokkrir smáhlutir.

Sama dag rak tvö brot úr bátnum í Sanday. Voru þau bæði úr byrðing eða öldustokk. Þar sást letrið á: Eyfi á öðrum, en EA. á hinum. Skammt frá rak einnig björgunarbát, dökkgráan með rauðum botni. Þriðja líkið rak á Sanday. Var það með merktan hring, sem gefur til kynna af hverjum skipverjanna líkið var. Alls fundust 4 lík. (*Sjá nánari útskýringu hér fyrir neðan)
Strandið virðist hafa borið mjög brátt að og skipverjum ekki unnist tími til að koma út neyðarskeytum. Eru helst líkur til þess að einungis þeir menn sem á vakt hafi verið, hafi haft tíma til að búa sig björgunarbeltum áður en skipið fórst á skerjunum.

Fyrst eftir slysið héldu menn að skipið væri færeyskt eða danskt og birtu dönsk blöð fregnina á þann veg að óþekkt danskt eða færeyskt skip hefði farist þarna. Þegar reka fór úr skipinu, kom í ljós að skipið var íslenskt, og var slysið þá tilkynnt sendiráðinu í London, en það sendi skeyti til utanríkisráðuneytisins fimmtudaginn 14. febrúar. Var þá vitað að skipið myndi vera frá Akureyri eða skráð þar, en sagt að það héti Ísfirðingur.

Skv. upplýsingum á heimasíðunni Canmore – National Record of the Historic Environment fannst flak Eyfirðings í Lashy Sound á 3 m dýpi (eftir því sem ég get best séð) árið 2008.


UPPFÆRT Í JANÚAR 2024

Allt hér fyrir ofan tók ég saman í desember 2023. Mest af upplýsingunum kom úr blaðagreinum sem birtar voru um það leyti sem slysið varð, og mér tókst aðeins að finna eina ljósmynd af Eyfirðing. Þegar mér fannst ég vera búin að fara nógu vel í efnið, ákvað ég af rælni að athuga hvort mér tækist að finna aðra ljósmynd og þá rekst ég fyrir tilviljun á grein sem birtist í Lesendahorni Dags þann 22.04.1992 á síðu 4. Greinin hét ,,Upplýsinga leitað! – um íslenskt skip sem fórst við Orkneyjar 11. febrúar 1952“ og var bréf frá Orkneyjum, frá manni að nafni John Towrie, þar sem hann er að leita frekari upplýsinga um Eyfirðing og sögu þess. Meðal þess sem John nefnir í þessu bréfi, er að fimm lík hafi fundist (ekki fjögur eins og stóð í öllum heimildunum sem ég fann!) og að einn af skipverjunum, vélstjórinn Guðmundur Kristinn Gestsson, hafi verið jarðaður á eynni Stronsey, sem er hluti af Orkneyjum.
Þannig að næsta verkefni á dagskrá var að komast að því HVAR Guðmundur Kristinn er jarðaður.

Mér gekk lítið að finna John Towrie – enda rétt rúm 30 ár liðin frá því að hann skrifaði þetta bréf. En svo leitaði ég á náðir Facebook, fann hópsíðu fyrir íbúa eyjarinnar Stronsay og setti inn fyrirspurn þar til að heyra hvort að fólk vissi eitthvað um þetta mál. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, og ég fékk fljótt samband við frænda John Towrie, Brian Tulloch, sem sagði mér að John hefði látist stuttu eftir að hann skrifaði Degi, en að rétt áður en hann lést hafi hann náð að klára grein um það þegar Eyfirðingur EA 480 fórst. Brian var svo vinsamlegur að senda mér greinina, sem er mjög áhugaverð, og ég fékk leyfi hans til að birta hana hér á síðunni. Fær hann kærar þakkir fyrir alla aðstoðina, sem og útgefendur blaðsins The Orkney View, Alastair og Anne Cormack, en grein Johns birtist í því blaði. Í greininni má greinilega sjá hversu mikil áhrif þetta sjóslys hafði á íbúa Orkneyja, en í greininni stendur m.a. ,,…it was one of the most tragic shipping accidents in Orkney waters in the last fifty years.“

Ég mæli með lestri greinar John Towrie – frásögn hans gerir atburðina í kringum slysið ljóslifandi – sjá hér fyrir neðan.


En leitinni að Guðmundi Kristni var ekki lokið. Eins og sjá má í grein John, segir hann að Guðmundur Kristinn hafi verið lagður til hinstu hvílu í ,,Bay Cemetery“ á Stronsay. Sjá framh. við umfjöllun um Guðmund Kristinn hér fyrir neðan.

Þeir sem fórust voru:


Benedikt Kristjánsson

Benedikt Kristjánsson, skipstjóri, 45 ára, til heimilis að Skipasundi 19 í Reykjavík.

Benedikt fæddist þann 27. september 1906 í Einholti í Mýrahr., A-Skafta. Hann lét eftir sig konu, eitt barn tveggja ára og tvær stjúpdætur 11 og 14 ára.

Benedikt hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Erlendur Pálsson

Erlendur Pálsson, 1. vélstjóri, 46 ára, til heimilis að Laugarneskamp 10 í Reykjavík.

Erlendur fæddist þann 5. ágúst 1905 Seyðisfirði. Hann var ókvæntur og barnlaus og lét eftir sig aldraða móður.

Erlendur hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Guðmundur Kristinn Gestsson

Guðmundur Kristinn Gestsson, 2. vélstjóri, 25 ára, til heimilis að Bragagötu 29A, Reykjavík.

Guðmundur var fæddur þann 14. mars 1926 á Óðinsgötu 11 í Reykjavík. Hann var ókvæntur og barnlaus og lét eftir sig aldraða móður.

Lík Guðmundar fannst í fjörunni við bæinn Kelsir við Noust o’Taing, sem er á Norður Rothisholm á eynni Stronsay þann 27. mars 1952. Var hann lagður til hinstu hvílu í Lady Kirk Bay kirkjugarðinum á Stronsay í Orkneyjum. Á kistu hans var lagður krans frá íbúum Stronsay eyjar, í minningu hins íslenska sjómanns.

Ekki veit ég hvort að settur hafi verið kross á leið Guðmundar, en í dag er leiði hans ómerkt – sjá mynd hér fyrir neðan, þar sem leiði Guðmundar er fyrir miðri mynd. Staðsetninguna má sjá á kortinu hér til hægri. Svo mæli ég með að kíkt sé á síðu Guðmundar í gagngrunninum, þar er að finna fleiri skjöl og upplýsingar.


Marvin Haukdal Guðmundsson

Marvin Haukdal Guðmundsson, stýrimaður, 29 ára, til heimilis að Nesvegi 58 í Reykjavík.

Marvin var fæddur þann 16. júlí 1922 á Alviðru í Mýrahr., V-Ís. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Marvin hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Vernharð Eggertsson

Vernharð Eggertsson, matsveinn, 42 ára, til heimilis að Suðurlandsbraut 9 í Reykjavík.

Vernharð var fæddur þann 4. desember 1909 á Oddeyri á Akureyri. Hann var skáld og þekktur undir nafninu Dagur Austan

Vernharð hvílir í Kirkjug. Akureyrar – Naustahöfða.


Sigurður Gunnar Gunnlaugsson

Sigurður Gunnar Gunnlaugsson, háseti, 21 árs, til heimilis að Brávallagötu 12 í Reykjavík.

Sigurður Gunnar var fæddur þann 14. ágúst 1930 á Dalvík. Hann lét eftir sig aldraða foreldra.

Hann hvílir í votri gröf.


Guðmundur Sigurðsson

Guðmundur Sigurðsson, háseti, 47 ára, til heimilis að Leiti í Mýrahr., V-Ís.

Guðmundur var fæddur þann 29. júlí 1904 að Ytri-Húsum í Mýrahr., V-Ís. Hann var ókvæntur og barnlaus

Hann hvílir í votri gröf.


Heimildir:
Canmore – National Record of the Historic Environment
Dagur 22.04.1992, s. 4
LLOYD’S REGISTER OF SHIPPING
Sjómannadagsblaðið 31.05.2003, s. 27
Tíminn 16.02.1952, s. 1, 7
Þjóðviljinn 04.08.1952, s. 4
Ægir 01.01.1952, s. 22